„Það er tími til kominn að rússnesk stjórnvöld skilji að tilraunir þeirra til að endurbyggja hið fallna stórveldi eru dæmdar til að mistakast.“
Þetta sagði utanríkisráðherra Póllands, Radoslaw Sikorski, í myndskeiði á X í dag sem sjá má hér að neðan. Rússar eru taldir hafa rofið lofthelgi Póllands 19 sinnum í nótt með árásardrónum.
Ráðherrann sagði viðbúið að Rússar neituðu sök en þeir væru einungis að sýna sovéska takta með slíkum lygum.
„Fulltrúi rússneska sendiráðsins hefur verið kallaður á fund okkar, þar sem mótmælum okkar var lýst yfir. Ég geri mér grein fyrir því að Rússar segjast ekki hafa neitt með þetta að gera og benda jafnvel á Úkraínumenn.“
„Þetta var viðbúið. Lygar og afneitun eru venjulega „sovésk“ viðbrögð,“ sagði ráðherrann um viðbrögð stjórnvalda í Kreml sem hann sagði enn á ný hæðast að tilraunum Trump um að koma á friði.
„Niðurstaða Póllands og Nató er sú að þeir hafi ekki villst af leið heldur hafi viljandi verið beint að Póllandi. Pólski herinn, með aðstoð bandamanna okkar frá Hollandi, Ítalíu og Þýskalandi, skutu þá niður. Eignaspjöll urðu en blessunarlega særðist enginn,“ sagði ráðherrann.
„Við í utanríkisráðuneytinu gripum strax til aðgerða. Ég talaði við Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Kaja Kallas, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, og Elina Valtonen, utanríkisráðherra Finna.“
„Við þökkum bandamönnum okkar fyrir hlý samstöðuorð og fyrir það að vera tilbúnir að bakka þau upp með aðgerðum,“ sagði hann.
„Pólland, Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið láta ekki ógna sér. Við munum áfram standa með hugrakkri þjóð Úkraínumanna,“ sagði hann að lokum.