Bolsonaro sakfelldur fyrir valdaránstilraun

Bolsonaro veifar frá heimili sínu í dag.
Bolsonaro veifar frá heimili sínu í dag. AFP/Sergio Lima

Hæstiréttur Brasilíu hefur sakfellt hinn 70 ára gamla Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseta landsins, fyrir tilraun til valdaráns. Mjög líklegt þykir að Bolsonaro fái langan fangelsisdóm sem gæti hljóðað upp á rúmlega 40 ár. Bolsonaro hefur neitað sök.

Tilraunina til valdaráns skipulagði forsetinn eftir að hann tapaði forsetakosningum árið 2022 fyrir hinum vinstrisinnaða Luiz Inacio Lula da Silva. Bolaonaro reyndi að halda völdum í kjölfarið.

Mat allra fimm hæstaréttardómara liggur fyrir og fjórir af fimm dómurum hafa komist að þeirri niðurstöðu að hann sé sekur. 

Þess má geta að einn af hæstaréttardómurunum fimm, Cristiano Zanin, er fyrrum lögmaður Lula.

Gæti dúsað í fangelsi í áratugi

Bolsonaro, sem var forseti á árunum 2019–2023, gæti fengið þungan dóm verði hann sakfelldur í öllum fimm ákæruliðum. Hann er m.a. ákærður fyrir að „leiða glæpasamtök“ sem hafi reynt að steypa forsetanum, Lula, af stóli.

Bolsonaro, sem situr í stofufangelsi, hefur neitað sök í málinu og sagst vera fórnarlamb pólitískra ofsókna. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur staðið með Bolsonaro í málinu. Trump hefur kallað réttarhöldin „nornaveiðar“ og sett á 50% tolla á Brasilíu. 

Fyrir framan hæstarétt í dag.
Fyrir framan hæstarétt í dag. AFP/Pablo Porciuncula
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert