Solberg afsegir sig frá formennsku

Engin slagorð dugðu Hægriflokknum á mánudaginn og Erna Solberg tilkynnti …
Engin slagorð dugðu Hægriflokknum á mánudaginn og Erna Solberg tilkynnti á blaðamannafundi í dag að nú væri sú stund komin að hún tæki sæng sína og gengi. AFP/Paul S. Amundsen

Erna Solberg, leiðtogi norska Hægriflokksins, hefur boðað brotthvarf sitt úr formannssætinu eftir 22 ár í kjölfar þess er flokkur hennar galt afhroð í kosningunum á mánudaginn.

Hlaut flokkurinn 14,6 prósent greiddra atkvæða sem er 5,7 prósentustiga hrun frá kosningunum árið 2021 og verstu kosningaúrslit hans síðan 2005.

„Á því verðum við og ég að taka ábyrgð,“ segir formaðurinn fráfarandi í tilkynningu og eru vangaveltur um eftirmenn hennar þegar farnar að sveima um norskt þjóðfélag. Hafa nöfn Inu Eriksen Søreide, þingmanns, á sínum tíma fyrsta kvenkyns utanríkisráðherra Noregs og fyrrverandi varnarmálaráðherra, Henriks Asheim, þingmanns og fyrrverandi ráðherra rannsókna og æðri menntunar, og Peters Christians Frølich, þingmanns og fyrrverandi borgarfulltrúa í Bergen, verið nefnd í því samhengi.

„Nei“

„Þegar Hægriflokkurinn gengur til kosninga framtíðarinnar verður það ekki undir minni stjórn,“ sagði forsætisráðherrann fyrrverandi á blaðamannafundi í dag og bætti því við að hún hefði farið þess á leit við miðstjórn flokksins að hann boðaði til landsfundar þar sem nýr formaður yrði kjörinn.

„Ég vissi að þessi dagur risi og ég hef vitað um hríð að ef kosningarnar færu eins og þær fóru yrði þetta lendingin,“ sagði Solberg á fundinum og var spurð hvort það gæti hafa skilað flokknum betri kosningu hefði hún tilkynnt afsögn sína fyrir kosningar.

„Nei,“ var svarið.

Neitaði hún því næst að svara spurningu um það hvort hlutabréfaviðskipti Sindre Finnes eiginmanns hennar, sem komust í hámæli árið 2023, gætu hafa haft áhrif á útkomuna á mánudaginn.

Spurð út í framtíðaráætlanir kveðst hún ætla sér að vera áfram góður og gegn þingmaður fyrir Hörðaland sem hún hefur verið allar götur síðan 1986. Hörðaland sameinaðist raunar Sognsæ og Firðafylki í ársbyrjun 2020 en Stórþingið ákvað þá á vormánuðum að þau nítján fylki sem Noregur skiptist í til og með 31. desember 2019 skyldu standa áfram sem kjördæmi.

NRK

E24

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert