Gráir fyrir járnum í héraðsdómi

Réttarhöld í Sarpsborg í Noregi snúast óbeint um tvo þungavigtarmenn …
Réttarhöld í Sarpsborg í Noregi snúast óbeint um tvo þungavigtarmenn í sænskum undirheimum þótt hvorugur sé þar ákærður. Þetta eru þeir Ismail Abdo, öðru nafni „jarðarberið“, og Rawa Majid, öðru nafni „kúrdíski refurinn“, áður samherjar í glæpaklíkunni Foxtrot en nú svarnir óvinir eftir átök sem ollu því að „jarðarberið“ klauf sig út og stofnaði klíkuna Rumba. Misheppnað banatilræði í Moss 2023 er talið tengjast viðsjám þeirra. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Vopnaðir lögregluþjónar sjást þessa dagana í varðstöðu í Héraðsdómi Sarpsborgar í hinu norska Østfold-fylki, tæpa hundrað kílómetra suður af Ósló, þar sem aðalmeðferð vegna manndrápstilraunar í Moss, skammt frá Sarpsborg, síðla árs 2023 stendur nú yfir.

Ítarlega var fjallað um málið hér á mbl.is fyrir jólin síðustu, en leigumorðingjar frá Svíþjóð voru þá sendir til að ganga milli bols og höfuðs á 37 ára gömlum Svía sem var skotinn átta skotum og lifði naumlega af. Í kjölfarið fylgdi stóraðgerð sérsveitar í Ósló eftir að lögregla komst á snoðir um samkomulag er sneri að því að myrða manninn á Ullevål-sjúkrahúsinu.

Kváðust fréttamenn norska ríkisútvarpsins NRK í umfjöllun þess um málið hafa vitneskju um að minnsta kosti níu svokölluð „crime as a service“-mál í Noregi þar sem falast hefði verið eftir því að félagar sænskra glæpagengja ryddu andstæðingum norskra gengja í Noregi úr vegi. Norska rannsóknarlögreglan Kripos kannaðist aðspurð við þessa aðferðafræði.

Saksóknarar fyrir dómi í Sarpsborg telja Ismail Abdo, alræmdan undirheimamann í Svíþjóð sem gengur þar undir viðurnefninu „jarðarberið“, hafa pantað banatilræðið misheppnaða í Moss til þess að koma höggi á erkióvin sinn í sænska gengjastríðinu, Rawa Majid, sem oftar heyrist nefndur „kúrdíski refurinn“ og hefur ásamt klíku sinni Foxtrot ítrekað komist á forsíður sænskra fjölmiðla fyrir fjölbreytt ódæði.

Getur hann varpað ljósi á blóðugt stríð?

Tæplega fimmtugur maður, sem er einn ákærðu í málinu og talinn hafa haft það hlutverk að lokka skotmarkið til Moss, settist í stúkuna klukkan 14 að staðartíma í gær, miðvikudag, og var öryggisstig lögreglu kringum hann slíkt að gluggum var lokað og gluggatjöld dregin fyrir í sal héraðsdóms.

Talið var að maðurinn gæti varpað ljósi á blóðugt stríðið milli Abdo og Majid síðan sá fyrrnefndi klauf sig út úr Foxtrot og stofnaði eigin glæpaklíku, Rumba, en væringarnar milli þeirra kúrdíska refsins hafa kostað fjölda mannslífa og sent „höggbylgjur gegnum alla Evrópu“ eins og NRK orðar það í umfjöllun sinni.

Neitaði maðurinn því staðfastlega að hafa lokkað hinn, sem til stóð að drepa, til Moss en notaði mun meira púður í frásögn sinni til að segja frá sambandi sínu við Rawa Majid sem hann kvaðst hafa aðstoðað við að flýja til Íraks eftir því sem Øyvind Bratlien verjandi hans greindi NRK frá.

Ísbúðin þar sem ís var aukaatriði

Áður hafði Majid forðað sér frá Svíþjóð eftir að verulega tók að hitna undir honum þar, hafði móðir hans þá meðal annars verið handtekin og hlotið dóm fyrir að aðstoða son sinn við peningaþvætti en þær tengdadóttir hennar, kona refsins, unnu í ísbúð í hans eigu í Uppsala þar sem ís reyndist gegna fullkomnu aukahlutverki.

Flúði hann þá til Tyrklands í fyrstu og fjarstýrði undirheimagengi sínu í Svíþjóð þaðan áður en honum tókst að koma sér til Íraks og þaðan áfram til Írans, en refurinn er írask-kúrdískur og var á sínum tíma annarrar kynslóðar innflytjandi í Svíþjóð þangað sem foreldrar hans fluttu á sínum tíma.

Fjórir menn sæta ákæru fyrir banatilræðið í Moss og eru sem segir hér að neðan en Ismail Abdo, sem gengur undir heitinu „Pantarinn“ (n. Bestilleren) í málinu, er ekki ákærður. Hann var handtekinn í stórri lögregluaðgerð í Tyrklandi í sumar og framseldur til Svíþjóðar.

„Bílstjórinn“ (n. Sjåføren) er 22 ára gamall Svíi sem annaðist akstur í Moss og var til reynslu sem félagi vélhjólaklúbbsins Bandidos í Svíþjóð. Hann hefur ekki hlotið refsidóma.

„Skyttan“ (n. Skytteren) er 26 ára gamall Sýrlendingur sem er grunaður um að hafa skotið sænska manninn átta skotum. Vitað er að þeir „Bílstjórinn“ voru á vettvangi í Moss 28. nóvember 2023.

„Beitan“ (n. Lokkemannen) er 49 ára gamall Svíi sem lögregla ætlar að hafi haft það hlutverk að ginna skotmarkið þangað sem vegið var að því úr launsátri. Sá neitar alfarið sök að sögn verjanda hans, Bratlien áðurnefnds.

„Reddarinn“ (n. Fikseren) er 33 ára gamall Svíi sem grunaður er um að hafa verið „Bílstjóranum“ og „Skyttunni“ innan handar við að útvega bifreið til verksins í Moss. Hann kannast ekkert við málið að sögn verjanda hans, Gard Lind-Iversen.

„Ég lamaðist um allan skrokkinn. Ég hélt að þetta væri mitt síðasta,“ sagði sá sem skotinn var í Moss þegar hann kom fyrir rétt í gær og settist í vitnastúkuna, tvo metra frá manninum sem ákærður er sem „Skyttan“ í málinu. Maðurinn hlaut alvarlega skotáverka og lá mánuðum saman á sjúkrahúsi. „Ég fór með mína hinstu bæn,“ sagði hann í stúkunni í gær.

Reiknað er með að aðalmeðferð málsins standi út októbermánuð.

NRK

NRK-II (Majid talinn hafa verið handtekinn í Íran 2023)

Aftenposten

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert