Gætu átt 15 ár yfir höfði sér

Malasíutígur í þjóðardýragarðinum í Malasíu. Sekt fyrir að drepa þessi …
Malasíutígur í þjóðardýragarðinum í Malasíu. Sekt fyrir að drepa þessi dýr getur numið 29.000 krónum en fangelsið fimmtán árum. Ljósmynd/Wikipedia.org/Tu7uh

Hræ af malasíutígrisdýri, sem fannst við leit eftirlitsmanna með dýrum í útrýmingarhættu í bifreið í þorpinu Felda Tenggaroh í Johor-fylki Malasíu, tæpa 400 kílómetra suðaustur af höfuðborginni Kúala Lúmpúr í gær, hefur vakið almenna reiði landsmanna og handtók lögregla þrjá menn vegna málsins.

Reyndust mennirnir þrír, sem eru á aldrinum 28 til 49 ára, ekki geta sýnt fram á nein skrifleg leyfi sem þarf til að hafa hræ þessarar tegundar í fórum sínum en við rannsókn reyndist dýrið hafa verið veitt í snöru og í kjölfarið skotið sex sinnum í höfuðið.

Malasíutígurinn telst í mikilli útrýmingarhættu og lifa innan við 150 einstaklingar af tegundinni villtir en malasíutígur prýðir skjaldarmerki landsins og er í miklum metum hjá þjóðinni.

29.000 króna sekt – 15 ára fangelsi

„Við erum með böggum hildar yfir því að það virðist sama hve mikið við leggjum í eftirlit veiðivarða, veiðiþjófar skirrast ekki við ráðast gegn þessari tignarlegu tegund,“ segir í yfirlýsingu Alþjóðasjóðs villtra dýra, World Wildlife Fund, til AFP-fréttastofunnar.

Kallar sjóðurinn eftir þyngstu refsingu sem lög leyfa verði hinir grunuðu sekir fundnir en samkvæmt malasískum lögum geta sektir fyrir að drepa malasíutígur eða hafa slíkan í haldi numið einni milljón þjóðargjaldeyrisins ringgit sem nemur tæpum 29.000 krónum. Fangelsisrefsing fyrir tiltækið verður hins vegar lengst fimmtán ár séu sakir miklar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert