Rúmlega fertugur maður, sem sænski vefmiðillinn Samnytt heldur fram að sé íslenskur, er ákærður ásamt tveimur öðrum, manni á sextugsaldri og konu á fertugsaldri, fyrir að skjóta 63 ára gamla konu til bana á heimili hennar í Akalla í Norðvestur-Stokkhólmi í október í fyrra.
Sænska dagblaðið Dagens Nyheter fjallar ítarlega um málið, þó án þess að segja nokkuð um þjóðerni hinna ákærðu, og segir það hafa komið í ljós hvers kyns var þegar nágranni hinnar myrtu, sem bjó í fjölbýlishúsi, gekk fram hjá íbúð hennar og veitti því athygli að dyrnar voru opnar.
„Svo sá ég að roskin kona lá í forstofunni,“ sagði nágranninn síðar við skýrslutöku hjá lögreglu eftir að rannsókn málsins var hafin.
Eftir því sem sænska ríkisútvarpið SVT greindi frá í nokkrum fréttum í október í fyrra, þar á meðal frétt um að grunuðu hefðu verið úrskurðuð í gæsluvarðhald, var hin myrta móðir manns sem tengdist undirheimaværingunum í Stokkhólmi og nágrenni og var víg hennar hefndaraðgerð í hans garð. Sá skaut 28 ára gamlan mann til bana á torginu í Husby í maí 2021, var handtekinn og ákærður en málinu lyktaði með sýknu.
Móðir hins sýknaða var enn fremur virk í stjórnmálastarfi fyrir sænska jafnaðarmannaflokkinn Socialdemokraterna auk þess að sinna kirkjustarfi í sinni sókn.
Hefur lögregla komist yfir samtöl af samskiptamiðlum þar sem sá sem sagður er íslenskur semur um verkið við „verkkaupa“ sem lögregla veit að sögn DN ekki enn þá hver er.
Kvaðst maðurinn í samtalinu ekki mundu hika við að skjóta börn í höfuðið ef svo bæri undir, en ákærðu liggja undir grun um að hafa lagt á ráðin um að myrða aðra konu sem hins vegar kom ekki til dyra þegar þau hringdu dyrabjöllu hennar og er talið hafa orðið henni til lífs.
Lögregla ræður af framangreindum rafrænum samskiptum að ætlunin hafi verið að hinn meinti Íslendingur fremdi fleiri manndráp fyrir þann sem pantaði víg konunnar í Akalla. Í löngu símtali, sem lögregla hefur upptöku af, ræddu þeir vopn, aðferðir og greiðslur fyrir verknaðina.
Hins vegar þekkir lögregla ekki ástæðurnar sem búa að baki dauðalista „verkkaupans“, en ræður af öðrum samskiptum að leigumorðinginn hafi átt að knýja dyra eða hringja dyrabjöllum á ákveðnum stöðum og skjóta þann sem til dyra kæmi. Af samskiptum mannanna tveggja ræður lögregla að ákærði hafi ekki haft hugmynd um hvað skotmörkin hefðu sér til saka unnið.
Aðgerðin náði hins vegar ekki lengra en að konunni í Akalla sem var skotin til bana og hinni sem ekki kom til dyra.
Í kjölfar drápsins virðist skyttan hafa þjáðst af miklum samviskukvölum og skrifað á samfélagsmiðilinn Instagram að hann gæti ekki lifað með sjálfum sér eftir verknaðinn. Játar hann svo í kjölfarið að konan hafi verið ráðin af dögum að undirlagi Dalen-klíkunnar í Stokkhólmi. Í hleruðu símtali mannsins síðar mátti þó heyra hann lýsa því yfir að það hefði verið meðákærða, konan á fertugsaldri, sú yngsta þeirra þriggja, sem birti þann texta.
Maðurinn játaði í yfirheyrslu í vor að hafa myrt konuna í Akalla, hin tvö meðákærðu neita bæði allri sök í málinu.
Dagens Nyheter (læst áskriftargrein)