Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og aðrir háttsettir embættismenn í stjórn hans munu leiða minningarathöfn um Charlie Kirk sem fer fram á leikvangi í Arizona í dag.
Trump, JD Vance varaforseti Bandaríkjanna, Marco Rubio utanríkisráðherra og Pete Hegseth varnarmálaráðherra munu allir flytja ávarp við minningarathöfnina í dag.
Einnig munu Tulsi Gabbard, yfirmaður leyniþjónustunnar, Robert F. Kennedy Jr. heilbrigðisráðherra, íhaldssami fréttaskýrandinn Tucker Carlson og aðrir áberandi embættismenn í stjórn Trumps flytja ræðu.
Kirk, sem var 31 árs, var skotinn til bana 10. september þegar hann flutti ræðu í háskóla í Utah sem hluti af vinsælli umræðufundaröð sinni.
Lögreglan handtók mann sem er grunaður um að hafa banað Kirk eftir leit sem stóð í um 33 klukkustundir. Fara saksóknarar fram á dauðarefsingu í málinu.
Morðið á hinum unga íhaldsleiðtoga sem stofnaði hægrisinnaða ungliðahreyfingu sem kallast Turning Point USA hefur dýpkað enn frekar harðar pólitískar deilur í Bandaríkjunum.
Yfirvöld segja að hinn grunaði, sem er 22 ára gamall, hafi vísað til þess „haturs“ sem hann taldi að Kirk hefði ýtt undir en Kirk gagnrýndi m.a. transfólks harðlega sem og múslíma og aðra hópa.
Kirk virkjaði milljónir fylgjenda sinna á samfélagsmiðlum, gríðarlegan áhorfendahóp hlaðvarps síns og framkomu í háskólum til að styrkja Trump meðal ungra kjósenda og berjast fyrir þjóðernissinnaðri, kristilegri pólitískri hugmyndafræði.
Jafnvel áður en meintur morðingi var nafngreindur eða handtekinn kallaði Trump Kirk „píslarvott sannleikans og frelsisins“ og kenndi orðræðu „róttæka vinstrisins“ um.
