Rúmlega fertugur maður, sem nú sætir ákæru fyrir Héraðsdómi Solna, norðvestur af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi, fyrir að skjóta konu á sjötugsaldri til bana á heimili hennar í Akalla í höfuðborginni í fyrra, er hálfur Íslendingur. Þetta staðfestir Alexandra Bittner héraðssaksóknari við mbl.is en málið var þingfest í héraðsdómi í gær og gert ráð fyrir aðalmeðferð í einn mánuð, til 23. október.
Samkvæmt upplýsingum annars heimildarmanns sem ræddi við mbl.is er maðurinn, sem er aðalákærði af þremur sakborningum í málinu, fæddur í Svíþjóð en var búsettur á Íslandi einhver af fullorðinsárum sínum og er íslenskur í móðurættina.
Breytti maðurinn íslensku nafni sínu í algengt sænskt nafn eftir að hann var handtekinn vegna málsins í kjölfar vígs konunnar 22. október í fyrra en ákærðu hafa öll setið í gæsluvarðhaldi frá því um miðjan nóvember, skömmu eftir að lögregla hafði hendur í hári þeirra. Aðalákærði er mæltur á íslenska tungu eftir því sem fram kom við yfirheyrslur hjá lögreglu.
Eins og sænskir fjölmiðlar og mbl.is hafa greint frá var ódæðið liður í hefndaraðgerð í þeirri glæpagengjastyrjöld sem ríkt hefur á Stokkhólmssvæðinu og víðar í Svíþjóð síðustu ár og var Íslendingurinn ráðinn til verksins gegn greiðslu 20.000 sænskra króna, jafnvirði tæplega 260.000 íslenskra króna.
Rætt hafði verið um að maðurinn myrti fleiri en konuna í Akalla sem var móðir manns sem tengist glæpagengi í Husby en sá hafði skotið 28 ára gamlan mann til bana á torginu í Husby í maí 2021, verið ákærður en sýknaður.
Eftir því sem lögregla las út úr samtölum „verkkaupa“ og aðalákærða á samskiptamiðlum var um lista yfir skotmörk að ræða og átti leigumorðinginn að hringja dyrabjöllum eða knýja á dyr á ákveðnum heimilisföngum og skjóta þann sem kæmi til dyra. Lýsti hann því yfir í einu samtalanna að hann skirrðist ekki við að myrða börn ef til kæmi.
Af samskiptum mannanna tveggja ræður lögregla að ákærði hafi ekki haft hugmynd um hvað skotmörkin hefðu sér til saka unnið. Kona, sem einnig var á listanum, kom ekki til dyra þegar hringt var á hennar bjöllu og varð það henni líklegast til lífs en fyrir þá tilraun eru aðalákærði og meðákærðu, kona á fertugsaldri og maður á sextugsaldri, ákærð fyrir tilraun til manndráps auk manndráps sem þau eru öll ákærð fyrir.
Konan sem myrt var í Akalla var virk í stjórnmálastarfi fyrir jafnaðarmannaflokkinn Socialdemokraterna auk þess að sinna sjálfboðavinnu í hverfiskirkjunni. Hana þekktu flestir íbúa Akalla sem voru með böggum hildar eftir harmleikinn og manndráp sem framið var með þeim hætti að roskin kona var skotin til bana þegar hún kom til dyra á heimili sínu.