Xi Jinping forseti Kína sagði á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í dag að Kína myndi leitast við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 7 til 10 prósent fyrir árið 2035.
Landið er stærsti kolefnislosandi heims en þetta er í fyrsta sinn sem stjórnvöld í Peking gefa jafn afgerandi loforð um að leggja sitt á vogarskálarnar til að sporna gegn hlýnun jarðar.
Xi Jinping tilkynnti þessar fyrirætlanir í gegnum myndband á loftslagsráðstefnunni en í því sagði hann: „Græn og kolefnissnauð umskipti eru trend okkar tíma. Sum lönd eru á móti því.“
Um var að ræða augljósa tilvísun í orð Donalds Trump Bandaríkjaforseta en í gær kallaði hann loftslagsbreytingar „stærsta svindl sem framið hefur verið á heiminum.“
Trump varaði einnig önnur lönd við því að nota endurnýjanlega orkugjafa og hét því að halda áfram að hvetja til olíuborana.
Bandaríkin taka ekki þátt loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í New York um þessar mundir.
