Stjórn Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, sem skipuleggur söngvakeppnina Eurovision, hefur boðað til sérstaks fundar þar sem hvert aðildarríki mun greiða atkvæði um þátttöku Ísraels í keppninni.
Frá þessu greinir dagblaðið New York Times og vísar til tölvupósts sem stjórnin mun hafa sent út til ríkissjónvarpsstöðva aðildarríkjanna í gær.
Álfan hefur logað í deilum um hvort Ísrael eigi að fá að taka þátt í keppninni í vor, í ljósi síaukinnar mannúðarkrísu á Gasasvæðinu vegna hernaðaraðgerða Ísraels.
Sjónvarpsstöðvar Spánar, Írlands og Hollands hafa á undanförnum vikum sagt að þær muni draga sig úr keppni ef Ísrael tekur þátt.
Á sama tíma hefur íslenska ríkissjónvarpið áskilið sér rétt til að hætta við þátttöku í keppninni ef ekki verði brugðist við með fullnægjandi hætti af hálfu sambandsins, án þess að komið hafi fram hvað í því felist.
Í tölvupósti stjórnarinnar segir Delphine Ernotte Cunci, forseti sambandsins, að samtökin hafi aldrei áður staðið frammi fyrir aðstæðum sem hafi valdið jafn mikilli sundrungu.
Aðstandendur Eurovision, sem fyrst var haldið árið 1956, hafa lengi reynt að mála keppnina sem ópólitískan viðburð sem sýni að þjóðir geti lagt pólitískan ágreining til hliðar í eitt kvöld og sameinast í söng.
Oft hafa þó verið merki um að því sé raunar þveröfugt farið.
Margir gagnrýndu lagið sem ísraelska sjónvarpsstöðin sendi í síðustu keppni fyrir að fela í sér dulbúnar athugasemdir um stríðið á Gasa og sögðu skipuleggjendur keppninnar að breyta þyrfti textanum.
Á úrslitakvöldinu lenti Ísrael svo í öðru sæti eftir að keppandi þeirra, Yuval Raphael, sem lifði af árás Hamas, fékk flest atkvæði almennings. Það var ekki fyrr en á lokametrunum sem keppandi Austurríkis skaust fram úr, þegar atkvæði dómnefnda komu til skjalanna.
Í kjölfarið kvörtuðu sum lönd undan því að ísraelsk stjórnvöld hefðu reynt að hafa áhrif á atkvæðagreiðsluna, þar sem Benjamín Netanjahú forsætisráðherra og opinberir samfélagsmiðlareikningar Ísraels höfðu hvatt til atkvæðagreiðslu, og ríkisauglýsingastofa Ísraels, sem starfar undir forsætisráðuneytinu, hafði keypt YouTube-auglýsingar til að hvetja til atkvæðagreiðslu.
Í júlí ræddu meðlimir Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva þátttöku Ísraels á fundi og nokkur aðildarríki, þar á meðal Ísland, mæltust þá til þess að vísa Ísrael úr keppninni.
Þess í stað fólu samtökin sérfræðingi að safna saman skoðunum aðildarríkja til umræðu á aðalfundi sínum í desember.
En á undanförnum vikum hefur þrýstingurinn aukist. Þann 11. september sagði RTÉ, ríkisútvarp Írlands, í yfirlýsingu að það myndi „ekki taka þátt í Eurovision-söngvakeppninni 2026 ef þátttaka Ísraels verður að veruleika“.
Írland hefur unnið Eurovision sjö sinnum og er, ásamt Svíþjóð, sigursælasta þjóð keppninnar.
„RTÉ telur að þátttaka Írlands væri óverjandi í ljósi hins yfirstandandi og skelfilega manntjóns á Gasa,“ sagði í yfirlýsingunni. Var því bætt við að sjónvarpsstöðin hefði einnig „miklar áhyggjur af markvissum morðum á blaðamönnum á Gasa, synjun á aðgangi alþjóðlegra blaðamanna að svæðinu og högum þeirra gísla sem eftir eru“.
Þá sagði hollenska ríkisútvarpið einnig að það myndi draga sig úr keppni ef Ísrael tæki þátt, sem og RTVE á Spáni.