Milljarðamæringurinn Elon Musk og Andrés prins eru nefndir í nýjum skjölum sem demókratar á Bandaríkjaþingi hafa birt og tengjast hinum dæmda kynferðisbrotamanni Jeffrey Epstein sem lést fyrir sex árum.
Skjölin, sem dánarbú Jeffreys Epstein afhenti eftirlitsnefnd fulltrúadeildarinnar, virðast sýna að Musk hefði verið boðið á eyju Epstein í desember 2014.
Þá er Andrés prins sérstaklega nefndur meðal farþega á farþegalista fyrir flug frá New Jersey til Flórída í maí 2000, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins.
Andrés prins hefur áður harðneitað öllum ásökunum um misgjörðir. Áður hefur verið haft eftir Musk að Epstein hafi boðið honum á eyjuna en hann hafi afþakkað boðið.
Skjölin sem um ræðir eru hluti af þriðja skammtinum af gögnum frá dánarbúi Epsteins. Demókratar í eftirlitsnefnd fulltrúadeildarinnar segja að þau innihaldi símaskilaboð, afrit af flugferðaskrám og farþegalistum flugvéla, afrit af fjárhagsbókum og dagskrá Epsteins.
Auk Musk og Andrésar prins innihalda skjölin sem birt hafa verið nöfn annarra þekktra einstaklinga, þar á meðal netfrumkvöðulsins Peters Thiel og Steve Bannon, fyrrverandi ráðgjafa Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna.
