Stjórnvöld í Þýskalandi íhuga að heimila hernum að skjóta niður dróna að því er þýska blaðið Bild greinir frá í dag.
Spenna hefur færst í aukana í Evrópu gagnvart Rússlandi í kjölfar dróna sem hafa sést á flugi víða í álfunni.
Undanfarna daga hefur sést til dróna fljúga yfir flugvöllum í Danmörku og Noregi, sem hefur valdið því að sumum þeirra hefur verið lokað tímabundið. Einnig sást til dróna fljúga yfir stærstu herstöð Danmerkur seint í gærkvöldi.
Þýskaland hefur einnig greint frá því að tilkynningar um grunsamlegar drónaferðir hafi aukist undanfarið. Nýjasta tilfellið var í norðurhluta landsins í gærkvöldi sem liggur að Danmörku.
Grunur hefur beinst að Rússlandi þótt engar óyggjandi sannanir liggi fyrir.
Þýsk stjórnvöld hafa þegar tilkynnt um áform um að efla drónavarnarkerfi sín fyrr í vikunni til að bregðast við vaxandi ógn frá Rússlandi.
Bild greinir frá því í dag að þýsk stjórnvöld íhugi nú að leyfa hernum að skjóta niður dróna við ákveðnar aðstæður.
Herinn ætti að geta gripið inn í ef dróni ógnar mannslífum eða mikilvægum innviðum og ef aðrar aðgerðir duga ekki til.
Í slíkum tilfellum yrði ákvörðunarvald að sögn fært yfir til varnarmálaráðuneytisins. Slíkt vald er nú í höndum lögreglunnar.
AFP hafði samband við innanríkisráðuneytið sem hefur ekki viljað staðfesta þessi áform.
