Harry Bretaprins hefur gefið í skyn að fólk sé að reyna að koma í veg fyrir að hann nái að sættast við Karl konung föður sinn. Harry segir að fréttaflutningur af nýlegum fundi þeirra hafi verið kolrangur.
Harry hitti föður sinn í Clarence House í London 10. september sem var fyrsti fundur þeirra feðga augliti til auglitis síðan í febrúar 2024.
Fram kemur í umfjöllun BBC að gefið hefði verið í skyn í umfjöllun The Sun í gær að endurfundirnir hefðu verið formlegri en búist hefði verið við og að Harry hefði að sögn upplifað sig eins og hann væri opinber gestur en ekki hluti af fjölskyldunni.
Í yfirlýsingu segir talsmaður Harry prins að fullyrðingarnar séu „hreinn uppspuni sem heimildarmenn, sem ætla sér að spilla fyrir sáttum milli feðganna, hljóta að hafa matað fjölmiðla á.“
Talsmaðurinn fór ekki nánar út í það hverjir heimildarmennirnir gætu verið.
Dagblaðið The Sun sagði að Harry prins hefði staðfest atriði í fréttaflutningi þess. Þar kom fram að skrifstofa hertogans „hefði fengið fullan rétt til andsvars í gær fyrir birtingu og kosið að bregðast ekki við vandlega heimildafærðri frásögn The Sun af fundinum“.
Nýleg heimsókn hertogans til Bretlands stóð yfir í fjóra daga og á meðan henni stóð sinnti hann ýmsum góðgerðarviðburðum í Nottingham og London.
Tæp tvö ár voru liðin síðan feðgarnir sáust síðast, en síðasti fundur þeirra fór fram skömmu eftir krabbameinsgreiningu konungs á síðasta ári.
