Evrópskir leiðtogar ánægðir með áætlun Trumps

Friðaráætlun Trumps er í tuttugu liðum.
Friðaráætlun Trumps er í tuttugu liðum. AFP/Ludovic Marin

Leiðtogar Evrópuríkja segjast styðja friðaráætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta fyrir Gasasvæðið. Þeir hvetja hryðjuverkasamtökin Hamas til að samþykkja áætlunina.

Trump átti fund með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, fyrr í kvöld. Þar féllst forsætisráðherrann á friðaráætlun Trumps, sem er í tuttugu liðum. 

Áætlunin felur m.a. í sér að skipuð verði sérstök „friðarstjórn“ yfir Gasasvæðinu, þar sem Trump verður í forsvari. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, mun einnig sitja í stjórninni en enn á eftir að tilkynna aðra liðsmenn hennar. 

Í áætlun Trumps kemur einnig fram að ef báðir aðilar samþykkja tillöguna ljúki stríðinu þegar í stað. Enn er beðið eftir afstöðu Hamas til áætlunarinnar. 

Trump og Netanjahú fyrr í dag.
Trump og Netanjahú fyrr í dag. AFP

Fagna viðleitni Trumps

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, segist styðja áætlunina og hvetur Hamas til að samþykkja hana „og binda enda á eymdina með því að leggja niður vopn og sleppa öllum gíslum sem eftir eru.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segist einnig styðja tillöguna og segir frönsk stjórnvöld vera reiðubúin að leggja sitt af mörkum til að binda enda á stríðið á Gasasvæðinu.

Utanríkisráðherrar Sádí Arabíu, Jórdaníu, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Katar og Egyptalands hafa einnig gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir fagna viðleitni Trumps við að binda enda á stríðið á Gasa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert