Netanjahú samþykkir friðaráætlun Trumps

Netanjahú og Trump að loknum blaðamannafundi sínum.
Netanjahú og Trump að loknum blaðamannafundi sínum. AFP/ANDREW CABALLERO-REYNOLDS

Íbúar á Gasasvæðinu verða hvattir til að halda kyrru fyrir samkvæmt nýrri friðaráætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

Trump fundaði fyrr í dag með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, um samkomulag um Gasasvæðið. Þar féllst Netanjahú á friðaráætlun Trumps, sem er í tuttugu liðum.

Áætlunin felur í sér að skipuð verði sérstök „Friðarstjórn“ yfir Gasasvæðinu, þar sem Trump sjálfur mun sitja í forsæti. Þá verður Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, einnig í stjórninni, en eftir á að tilkynna um aðra meðlimi hennar.

Þá verður Hamas-samtökunum gert að skila öllum gíslum sínum innan þriggja sólarhringa frá því að áætlunin gengur í gildi.

Palestínumönnum ekki gert að yfirgefa svæðið

Þar kemur fram að íbúum á Gasasvæðinu verði ekki gert að yfirgefa svæðið með valdi. Jafnframt muni Trump fara með bráðabirgðastjórn á svæðinu á meðan.

Áætlunin mun hafa verið kynnt fyrir öðrum leiðtogum Miðausturlanda sem Trump fundaði með í síðustu viku.

„Hamas verður afvopnað“

Netanjahú sagði á sameiginlegum blaðamannafundi sínum með Trump að Hamas-samtökin yrðu afvopnuð og allur her kallaður frá Gasasvæðinu í áföngum. Þá myndi Ísrael bera ábyrgð á öryggi svæðisins um fyrirsjáanlega framtíð.

„Og að lokum, þá mun Gasa hafa friðsama, borgaralega stjórn, sem hvorki Hamas, né palestínska heimastjórnin munu stýra,“ sagði Netanjahú. Hann bætti við að mikið þyrfti að breytast til þess að heimastjórninni, sem hefur farið með völdin á Vesturbakkanum, yrði leyft að taka við Gasasvæðinu. 

Trump og Netanjahú voru sammála um að Hamas myndi þurfa að þola afleiðingarnar ef þeir samþykktu ekki friðaráætlunina. Sagði Netanjahú að þá myndi Ísrael „klára verkefnið“, og að hægt yrði að gera það á auðvelda mátann eða erfiða mátann. „En það verður gert,“ sagði Netanjahú.

Trump sagði að Bandaríkin myndu þá styðja við Ísrael í þeim aðgerðum sem þeir teldu sig þurfa að gera til þess að koma á friði. 

Trump og Netanjahú fyrr í dag.
Trump og Netanjahú fyrr í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert