Svona lítur friðaráætlun Trumps út

Trump og Netanjahú í gærkvöldi.
Trump og Netanjahú í gærkvöldi. AFP

Hvíta húsið birti í gær friðaráætlun Trumps Bandaríkjaforseta varðandi stríðið á Gasasvæðinu, en hún er í 20 liðum.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, lýsti yfir stuðningi við hana, en enn er ekki vitað hvaða afstöðu Hamas-samtökin hafa. 

Svona er áætlunin:

  1. Gasasvæðið verður af-„radíkalíserað“ svæði án hryðjuverka sem mun ekki valda ógn fyrir nágranna sína.
  2. Gasasvæðið verður endurbyggt til hagsbóta almenningi á svæðinu, sem hefur fengið að þola meira en nóg.
  3. Ef báðar hliðar samþykkja þessa tillögu mun stríðinu ljúka undir eins. Ísraelskar hersveitir munu draga sig í hlé til áður samþykktrar línu og undirbúa að taka á móti gíslum. Á meðan því stendur mun öllum hernaðaraðgerðum, þar á meðal loftárásum og stórskotahríð, verða hætt, og víglínur verða frosnar þar til skilyrðum fyrir fullri brottför er fullnægt. 
  4. Öllum gíslum, bæði lífs og liðnum, verður skilað innan 72 klukkustunda frá því að Ísraelsstjórn samþykkir opinberlega samkomulagið. 
  5. Þegar búið er að sleppa öllum gíslunum mun Ísrael sleppa 250 föngum, sem fangelsaðir hafa verið fyrir lífstíð, auk 1.700 íbúum Gasa sem handteknir voru eftir 7. október 2023, þar á meðal öllum konum og börnum sem handteknir voru á því tímabili. Fyrir sérhvern [látinn] ísraelskan gísl sem er skilað mun Ísrael skila líkamsleifum 15 látinna Gasabúa.  
  6. Þegar búið er að skila öllum gíslunum munu þeir meðlimir Hamas-samtakanna sem heita því að lifa í sátt við nágranna sína og að skila inn vopnum sínum fá uppgjöf saka. Þeir meðlimir Hamas sem vilja yfirgefa Gasa munu fá örugga leið til þess að fara til annarra ríkja. 
  7. Þegar samkomulagið hefur verið samþykkt verður full neyðaraðstoð send þegar í stað til Gasasvæðisins. Magn neyðaraðstoðar verður að lágmarki í samræmi við það sem fólst í samkomulaginu frá 19. janúar 2025 um neyðaraðstoð, með enduruppbyggingu innviða (vatns, rafmagns, frárennslis), enduruppbyggingu sjúkrahúsa og bakaría, og nauðsynleg tæki til þess að fjarlægja rústir og til að opna vegi.
  8. Dreifing neyðaraðstoðar á Gasasvæðinu mun fara fram án truflunar frá báðum aðilum í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra, og Rauða hálfmánann, auk annarra alþjóðastofnanna sem tengjast hvorugum aðilum á nokkurn hátt. Opnun Rafah-ganganna í báðar áttir verður með sama fyrirkomulagi og í samkomulaginu frá 19. janúar 2025.
  9. Gasasvæðinu verður stjórnað af tímabundinni bráðabirgðastjórn ópólitískrar og tæknilegar palestínskrar nefndar, sem mun bera ábyrgð á daglegri stjórn opinberrar þjónustu og stofnanna fyrir fólkið á Gasa. Þessi nefnd verður skipuð hæfum Palestínumönnum og alþjóðlegum sérfræðingum, og yfirstjórn og eftirlit verður í höndum nýrrar alþjóðlegrar bráðabirgðastofnunar, „Friðarborðsins“, sem verður leidd af Donald J. Trump forseta, en aðrir meðlimir og þjóðhöfðingjar verða kynntir síðar, þar á meðal fyrrverandi forsætisráðherrann Tony Blair. Þessi stofnun mun setja þann ramma og stjórna því fjármagni sem fer til enduruppbyggingar á Gasasvæðinu þar til palestínska heimastjórnin hefur lokið þeim umbótum, sem hinar ýmsu tillögur hafa áður lagt til, þar á meðal friðaráætlun Trumps forseta frá 2020 og tillögur Frakka og Sáda, þannig að hún geti á öruggan og skilvirkan hátt tekið aftur við stjórninni á Gasasvæðinu. Þessi stofnun mun treysta á bestu mögulegu alþjóðlega staðla til þess að búa til nútímalega og skilvirka stjórnunarhætti, sem munu þjóna fólkinu á Gasa og ýtir undir erlenda fjárfestingu.
  10. Sérstök efnahagsáætlun Trumps til að endurbyggja og efla Gasasvæðið verður búin til með því að kalla saman hóp sérfræðinga, sem hafa hafa byggt upp sumar af nútímalegum undraborgum í Miðausturlöndum. Margar hugmyndir um fjárfestingar verða teknar til skoðunar til að skapa störf, tækifæri og von fyrir framtíð Gasa. Margar innihaldsríkar fjárfestingaáætlanir og spennandi þróunarhugmyndir hafa verið gerðar af velmeinandi alþjóðasamtökum og verða teknar til greina til þess að búa til það öryggi og stjórnunarramma til að laða að og gera möguleg þær fjárfestingar sem munu skapa störf, tækifæri og von fyrir Gasa framtíðarinnar.
  11. Sérstakt efnahagssvæði verður stofnað með tollaívilnunum fyrir lönd sem semja um það.
  12. Enginn verður neyddur til þess að yfirgefa Gasasvæðið og þeir sem vilja yfirgefa það munu hafa frelsi til þess, og frelsi til þess að snúa aftur. Við viljum hvetja fólk til þess að vera um kyrrt og bjóða þeim tækifærið til þess að byggja betra Gasasvæði. 
  13. Hamas og önnur samtök samþykkja að hafa ekkert hlutverk í stjórnun Gasasvæðinu, beint, óbeint, eða á nokkurn hátt. Öll hernaðar-, hryðjuverka-, og árásarmannvirki, þar á meðal neðanjarðargöng og vopnaframleiðslustöðvar, verða eyðilagðar og ekki endurreistar. 
  14. Tryggt verður með sérstöku samkomulagi að Hamas-samtökin og undirdeildir þeirra uppfylli sínar skyldur og Nýja-Gasa verði nágrönnum sínum engin hótun.
  15. Bandaríkin munu vinna að því með arabaþjóðum að koma upp tímabundnum hersveitum, International Stabilisation Force, ISF, með það fyrir augum að tryggja frið á Gasa. Sveitir þessar munu verða lögreglusveitum á Gasa innan handar auk þess að ráðfæra sig við Jórdana og Egypta sem reynslu hafa á þessum vettvangi. Þá munu sveitirnar vinna með Ísraelum og Egyptum að því að tryggja landamæri í samstarfi við nýþjálfaða palestínska lögreglu. Mikilvægt er að fyrirbyggja að hernaðargögn berist inn á Gasa samtímis því að flæði vista og lífsnauðsynja sé tryggt.
  16. Ísrael mun ekki hernema eða innlima Gasa. Eftir því sem ISF-sveitirnar knýja ástandið á Gasa til kyrrðar mun Ísraelsher draga sig í hlé eftir tímaáætlun hernaðarlegrar niðurtröppunar svæðisins samkvæmt samkomulagi Ísraelshers, ISF-sveitanna og Bandaríkjanna þar um í því augnamiði að Gasasvæðið verði Ísrael og Egyptalandi, auk borgara þeirra, engin ógn í framtíðinni. Ísraelsher mun láta þau svæði á Gasa, sem hann ræður yfir, af hendi við ISF-sveitirnar í áföngum þar til hann dregur sig algjörlega í hlé frá Gasa.
  17. Tefji Hamas-liðar framkvæmd þessara tillagna eða hafni þeim, þar meðtalinni hjálpargagnaáætluninni, mun framangreindum þrepum áætlunarinnar fram haldið á hryðjuverkalausum svæðum sem Ísraelsher hefur afhent ISF-sveitunum.
  18. Samtali, byggðu á gagnkvæmu trausti, verður komið á með forsendum umburðarlyndi og friðsamlegrar sambúðar með það fyrir augum að breyta hugsunarhætti og frásagnarmáta Palestínumanna og Ísraela með því að leggja áherslu á þá kosti sem friður hefur í för með sér.
  19. Meðan á uppbyggingu Gasasvæðisins stendur og þegar endurreisn palestínskra stjórnvalda er um garð gengin verða þær kringumstæður hugsanlega fyrir hendi að palestínsk sjálfsstjórn og ríkisvald geti þrifist, ástand sem við lítum á sem endurreisn palestínsku þjóðarinnar.
  20. Bandaríkin munu koma á samtali milli Ísraels og Palestínu í því augnamiði að skapa pólitískan raunveruleika sem byggir á friðsamlegri og uppbyggilegri sambúð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert