Tveir skipverjar á rússnesku olíuskipi, sem talið er hluti af „skuggaflota“ Rússa, hafa verið hnepptir í gæsluvarðhald. Áhöfn skipsins er grunuð um aðild að drónaflugi sem truflaði flugumferð í Danmörku í september.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti greindi frá því í dag að frönsk stjórnvöld hefðu tekið til rannsóknar olíuflutningaskip sem tengist Rússlandi og sætir refsiaðgerðum ESB vegna „alvarlegra brota“.
Skipið nefnist Boracay en hefur einnig notast við nöfnin Kiwala og Pushpa. Siglir það undir fána Benín og liggur nú fyrir akkerum undan vesturströnd Frakklands.
Um er að ræða eitt þriggja skipa sem fjallað var um í síðustu viku að sættu grunsemdum danskra yfirvalda sökum dularfullra ferða við strendur landsins á sama tíma og drónarnir trufluðu flugumferð, en skipið sigldi dagana 22.-25. september.
Franski sjóherinn fór um borð í skipið í dag þar sem skipverjarnir voru handteknir. AFP-fréttaveitan greinir frá því að skipverjarnir hafi gefið sig fram sem skipstjóra og fyrsta stýrimann.
Frönsk yfirvöld hafa málið nú til rannsóknar en Stephane Kellenberger, franskur saksóknari, segir í samtali við AFP að frumrannsókn beinist að því að „ekki hafi verið lagðar fram sannanir fyrir þjóðerni skipsins“ auk þess sem skipverjarnir neituðu að fara eftir fyrirmælum.