Alls eru 3.832 andlát rakin til hita á tímabilinu 16. maí til 30. september á Spáni.
Fjölgar þeim um 87,6% frá sama tímabili í fyrra að því er spænska heilbrigðisráðuneytið greindi frá í dag.
Nærri tveir þriðju þeirra sem létust voru eldri en 85 ára og tæplega 96% voru yfir 65 ára segir ráðuneytið.
Tölurnar voru metnar með tölfræðilíkönum og tekið er fram að þær geti enn tekið breytingum.
Ráðuneytið notaði gögn úr dánartíðnieftirlitskerfi Spánar (MoMo), sem fylgist með daglegri dánartíðni á landsvísu og ber hana saman við sögulega þróun.
Það tekur einnig tillit til ytri þátta, svo sem veðurgagna frá spænsku veðurstofunni AEMET, til að meta líklegar orsakir aukinnar dánartíðni.
Þrátt fyrir að MoMo geti ekki staðfest bein orsakatengsl milli dauðsfalla og hás hitastigs þá veitir það áreiðanlegasta matið á dauðsföllum þar sem hiti var líklega afgerandi þáttur.
Flest dauðsföll sem tengjast hita eru vegna hjartaáfalla og heilablóðfalla sem orsakast af álaginu sem fylgir því að reyna að halda líkamshita stöðugum.
Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti um 25 dauðsföll af völdum hitaslags á sama tímabili.
Flest fórnarlömbin voru með áhættuþætti eins og langvinna sjúkdóma, voru í miklum hita í vinnu eða tómstundum, eða bjuggu ein eða á heimilum án loftkælingar að sögn yfirvalda.
Vísindamenn hafa ítrekað varað við því að loftslagsbreytingar af mannavöldum leiði til tíðari og öfgafyllri veðuratburða um allan heim.
Spánn gekk í gegnum heitasta sumar sitt frá því að mælingar hófust árið 1961, með meðalhita upp á 24,2 stig, að sögn AEMET.