Breski forsætisráðherrann Keir Starmer segir auknar öryggisráðstafanir verða í öllum bænahúsum gyðinga í Bretlandi í kjölfar árásarinnar í Manchester í morgun.
Forsætisráðherrann fór snemma af leiðtogafundi í Danmörku til að halda neyðarfund í London vegna árásarinnar.
Í sjónvarpsávarpi skömmu eftir fundinn talaði hann beint til gyðinga og hét því að „gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja ykkur það öryggi sem þið eigið skilið“.
Þótt gyðingahatur væri ekki nýtt af nálinni verði þjóðin að gera sér grein fyrir því að hatrið sé að aukast á ný og þörf sé á að sigra það á ný.
Árásin er mannskæðasta árás gegn gyðingum í Evrópu frá því að hryðjuverkasamtökin Hamas réðust á Ísrael þann 7. október 2023, sem hratt af stað yfirstandandi stríði á Gasa.
Tveir eru látnir og fjórir særðir eftir að maður ók bíl inn í mannfjölda fyrir utan troðfullt bænahús gyðinga í Manchester á helgidegi gyðinga og hóf í framhaldi hnífaárás.
