Selenskí segir Rússa færa sig upp á skaftið

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sést hér taka á móti Volodimír …
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sést hér taka á móti Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í Kaupmannahöfn í dag. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, varar Evrópu við því að nýleg drónaflug sýni fram á að Rússar séu að reyna að færa sig upp á skaftið og býður fram sérfræðiþekkingu Úkraínumanna á vígvellinum til að hjálpa til við að bregðast við þeirri ógn.

Leiðtogar frá tæplega 50 Evrópulöndum komu saman á ráðstefnu í Kaupmannahöfn þar sem öll öryggisgæsla var mjög ströng í kjölfar ferða dularfullra dróna sem hafa valdið óróa í landinu.

Drónaflugin í Danmörku og áberandi lofthelgisbrot Rússa í Eistlandi og Póllandi hafa aukið ótta við að hernaðaraðgerðir Rússa á Úkraínu gætu borist yfir til annarra evrópskra ríkja.

Rússar nægilega djarfir

„Nýleg drónaatvik víðs vegar um Evrópu eru skýrt merki um að Rússar telji sig enn nógu djarfa til að stigmagna þetta stríð,“ sagði Selenskí á fundinum í Kaupmannahöfn í dag.

„Þetta snerist aldrei bara um Úkraínu, Rússar hafa alltaf stefnt að því að brjóta niður Vesturlönd og Evrópu.“

Vilja vinna með Úkraínu

Evrópskir leiðtogar eru áhugasamir um að vinna með Úkraínumönnum þar sem þeir leitast við að efla eigin varnir og ræða áætlanir um drónamúr til að bregðast við ógninni frá Rússlandi.

„Ef Rússar þora að senda dróna gegn Póllandi eða brjóta gegn lofthelgi Norður-Evrópulanda þýðir það að þetta getur gerst hvar sem er,“ sagði Selenskí.

„Við erum reiðubúin að deila þessari reynslu með samstarfsaðilum okkar.“

Senda þurfi skýr skilaboð

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði að Vesturlönd ættu að vera reiðubúin til að taka harðari afstöðu þegar þau stæðu frammi fyrir rússneskum drónum til að sá efasemdum í Kreml.

„Það er mjög mikilvægt að senda skýr skilaboð. Drónar sem myndu brjóta gegn landsvæðum okkar taka einfaldlega mikla áhættu. Það er hægt að eyða þeim, punktur,“ sagði Macron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka