Að öllum líkindum fyrsti kvenkyns forsætisráðherra

Takaichi verður að öllum líkindum fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Japans.
Takaichi verður að öllum líkindum fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Japans. AFP

Íhaldskonan Sanae Takaichi var fyrr í dag kjörin leiðtogi Frjálslynda lýðræðisflokksins í Japan en flokkurinn hefur verið við völd í landinu nær samfleytt frá árinu 1955. 

Þetta kemur í kjölfar þess að Shigeru Ishiba, forsætisráðherra Japans og fyrrum formaður flokksins, sagði af sér fyrir tæpum mánuði. 

Takaichi, sem er 64 ára gömul, verður að öllum líkindum fyrsta konan til að taka við embætti forsætisráðherra Japan síðar í mánuðinum en Takaichi segir fyrirmynd sína vera Margaret Thatcher, sem var fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra í Bretlandi. 

Sigraði ungan frjálslyndan frambjóðanda

Takaichi stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum en öldrun japönsku þjóðarinnar er farin að hafa mikil áhrif auk þess sem innflytjendamál hafa orðið að miklu ágreiningsefni í landinu. 

Eitt fyrsta verkefni hennar verður að taka á móti Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem væntanlegur er til landsins í lok mánaðarins. 

Í leiðtogakjörinu bar Takaichi sigur úr býtum gegn hinum 44 ára gamla Shinjiro Koizumi, sem hefði verið yngsti forsætisráðherra í sögu Japans. Koizumi er sagður töluvert frjálslyndari en Takaichi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert