Almannavarnir á Gasa greindu frá því að Ísraelsmenn hefðu haldið áfram loftárásum á Gasaborg þrátt fyrir skipun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að árásum hersins yrði tafarlaust hætt.
„Þetta var mjög ofbeldisfull nótt þar sem (ísraelski herinn) gerði tugi loftárása og stórskotaliðsárása á Gasaborg og önnur svæði á Gasa þrátt fyrir skipun Trumps um að stöðva árásirnar,“ sagði Mahmud Bassal, talsmaður almannavarna á Gasa, við AFP-fréttaveituna.
Bassal sagði að 20 heimili hefðu eyðilagst í árásunum í nótt.
Sjúkrahús í Gasaborg greindi frá því að fjórir hefðu verið drepnir og nokkrir særst á heimili í Tuffah-hverfi.
Nasser-sjúkrahúsið í Khan Yunis greindi frá því að tvö börn hefðu verið drepin og átta særst í drónaárás á flóttamannabúðir.
Áætlun Trumps um frið kveður á um vopnahlé, lausn gísla innan 72 klukkustunda, afvopnun Hamas og stigvaxandi brottflutning Ísraela frá Gasasvæðinu.
Í gær greindu Hamas frá því að samtökin væru reiðubúin að frelsa alla gísla sem eru í haldi á Gasa en kölluðu eftir frekari upplýsingum um framtíð Gasasvæðsins.
