Að vera fréttamaður á ófriðartíma í landi þar sem borgarastyrjöld geisar og stjórnvöld vilja aðeins að ákveðinn áróður sé birtur er ekki auðvelt hlutskipti. Að eiga á hættu á hverjum degi að vera handtekin, pyntuð og jafnvel drepin fyrir það eitt að segja frá atburðum líðandi stundar og vera málsvari fjölmiðla- og tjáningarfrelsis er það sem fréttakonan, heimildarmyndagerðarkonan og aðgerðasinninn Lina bjó við um nokkurra ára skeið eftir að uppreisnin í Sýrlandi hófst og síðar borgarastríðið þar sem mörg hundruð þúsund voru drepnir og um helmingur landsmanna lagði á flótta.
Lina, sem gengur aðeins undir fyrra nafni sínu í öryggisskyni, var um 28 ára þegar uppreisnin byrjaði árið 2011 í heimalandinu. Í kjölfarið hófst borgarastríðið og stóð það yfir í nokkur ár með tilheyrandi mannfalli og hörmungum fyrir land og þjóð. Að lokum var einræðisherranum Bashar al-Assad steypt af stóli í desember í fyrra eftir að uppreisnarhópar hófu eins konar leyftursókn. Flúði hann land og tóku uppreisnarhópar við og reyna nú að byggja upp nýtt Sýrland. Því fylgja þó ýmsar og flóknar áskoranir og ekki er víst enn hvernig til mun takast.
Lina ræddi við mbl.is í tilefni þess að heimildarmynd hennar Fimm árstíðir uppreisnarinnar (e. 5 seasons of Revolution) var sýnd á Riff-kvikmyndahátíðinni fyrr í vikunni. Þar segir frá sögum kvenna meðan á átökunum stendur, en sjálf þurfti Lina að fara huldu höfði og hylja slóð sína til að forðast ofsóknir stjórnvalda til að geta kvikmyndað þessa sögulegu atburði.
Þegar uppreisnin hófst hafði Lina starfað sem sjónvarpsfréttakona og hafði klárað grunnnám í fjölmiðlafræði auk þess að vinna að meistaragráðu í faginu. Hún hætti fljótlega eftir að uppreisnin hófst þar sem „opinbera söguskýringin var algjörlega fáránleg“ og það gat hún ekki sætt sig við.
Hún segir að árin þar á undan hafi fjölmiðlar aðallega verið í ríkiseigu en einkamiðlarnir hafi aðallega verið í eigu hátt settra einstaklinga í stjórn Assads eða fjölskyldna þeirra. Hvorki fréttaflutningur hjá ríkisfjölmiðlum né hjá staðbundnum fjölmiðlum var að hennar sögn eitthvað sem hún myndi kalla raunverulegan fréttaflutning.
Hins vegar hafði orðið til örlítill angi af frjálsri fjölmiðlun með tilkomu internetsins og auknu aðgengi að því eftir aldamótin. Nefnir hún sérstaklega að fjöldi bloggsíðna hafi sprottið upp og þó að þær hafi ekki haft faglegt yfirbragð hefðbundinna fréttamiðla hafi það þó verið eitthvað. Á þessum tíma byrjuðu ungir fréttamenn í Sýrlandi einnig að starfa fyrir erlenda fjölmiðla eða sýrlenska fjölmiðla staðsetta utan landamæranna.
„Tilkoma internetsins og það hversu auðvelt var að koma upplýsingum á framfæri hratt og einnig tilkoma stafrænna myndavéla. Þetta allt gerði fréttamönnum auðveldara að starfa fyrir erlenda fréttamiðla og það skapaði fleiri tækifæri fyrir nýja kynslóð fréttamanna í Sýrlandi,“ segir Lina.
Á þessum tíma skrifaði fólk bæði undir nafni og nafnlaust að hennar sögn, en það fór að miklu leyti eftir því hvaða stöðu það hafði í samfélaginu. Lýsir hún þar hvernig staðan í Sýrlandi undir einræðisstjórn hafi verið talsvert öðruvísi en við þekkjum í vestrænum samfélögum. Þannig hafi fólk þurft að meta stöðu sína, í hvaða starfi það var, frá hvaða fjölskyldu það kom, hvaða trúarbragðahópi það tilheyrði og hvaða þjóðernis- og þjóðfélagshópi það væri hluti af.
Mikilvægasta breytan í þessu öllu var úr hvaða þjóðfélagshópi þú komst og hvort fjölskyldan þín væri rík og áhrifarík að sögn Linu. Nefnir hún sem dæmi að venjulegur háskólanemi hefði á þessum tíma ekki getað sagt það sama og t.d. formaður læknafélagsins. „Þú þarft að reikna allar þessar breytur saman og þannig fá út líkur á því hversu mikið þú kemst upp með að segja eða setja fram,“ útskýrir hún.
Inn í þessa þjóðfélagsskipun hafi meðal annars saga Tal al-Mallohi fléttast árið 2011, við upphaf uppreisnarinnar. Al-Mallohi var þá 20 ára gömul og hélt úti bloggsíðu með ljóðaskrifum þar sem hún skrifaði á tilfinningaríkan hátt, að miklu leyti um stöðuna í Palestínu. Síða hennar var hins vegar svo gott sem óþekkt og fáir sem fylgdust með skrifum hennar.
Í einni færslunni gagnrýndi al-Mallohi stjórnvöld í heimalandinu fyrir afskiptaleysi gagnvart málefnum Palestínu. Það var árið 2009 og varð til þess að hún var handtekin og árið 2011 dæmd í fimm ára fangelsi fyrir skrifin.
Þegar hún hlaut dóminn hafði uppreisn þegar átt sér stað í Túnis og Egyptalandi, hluti af svokölluðu arabísku vori. Lina lýsir ástandinu sem mjög eldfimu á þeim tíma. „Fólk var að velta fyrir sér hvaða land yrði næst og hvað myndi gerast í Sýrlandi. Þetta gerðist því á viðkvæmum tímapunkti.“
Segir hún að almenningur hafi orðið reiður þegar þetta gerðist því fólki hafi þótt refsing hennar, fimm ára fangelsi, vera mjög úr takti við meint brot hennar, en einnig í ljósi ungs aldurs hennar og að á þessum tíma hafi fáir lesið bloggið hennar. Stjórnvöld hafi því tekið hart á máli sem enginn var að velta fyrir sér, en það endaði með að allir vissu hver hún var í lokin og voru reiðir yfir aðgerðum stjórnvalda. Al-Mallohi endaði með að sitja í fangelsi þangað til í desember á síðasta ári þegar stjórn Assads féll og uppreisnarmenn fóru inn í fangelsi og leystu mikinn fjölda pólitískra fanga úr haldi.
En aftur að Linu. Fyrstu mánuði uppreisnarinnar var hún á fullu að sinna daglegum fréttaskrifum af gangi mála. Hún segist jafnframt hafa tekið þátt í friðsamlegum mótmælum á þessum tíma, bæði í höfuðborginni Damascus og í borginni Homs. Út frá fyrri dæmum frá arabíska vorinu hafi hún og aðrir talið að það tæki ekki nema nokkra daga eða vikur að fá fram breytingar, í mesta lagi einn mánuð.
Á þessum tímapunkti hugaði hún ekki að heimildarmynd, en þegar ekkert bólaði á breytingum eða vilja frá Assad-stjórninni til að koma til móts við mótmælendur hafi hún ákveðið að setja aukinn fókus í að skrásetja atburði til lengri tíma.
En hvernig gekk það upp að vera bæði aðgerðasinni og mótmælandi og á sama tíma fréttamaður? Lina segir að það hafi ekki verið erfitt að skilja þar á milli. Mótmælin hafi ekki síst snúist um að hún og aðrir gætu sagt skoðun sína og flutt fréttir af því sem var að gerast án þess að eiga á hættu að vera handteknir eða þaðan af verra. Á þessum tíma hafi verið mikið fjölmiðla- og upplýsingabann og mjög sterk ritskoðun. Jafnframt voru fáir eða engir erlendir fréttamenn í Sýrlandi. Þá hafi tengsl hennar við mótmælendahópa einnig leitt til þess að hún frétti af og var mætt fljótt á vettvang þar sem mótmæli áttu sér stað og gat þannig flutt fréttir af því sem skiluðu sér m.a. til erlendra miðla.
Lina starfaði ekki bara sem blaðamaður eftir að uppreisnin hófst heldur tók hún einnig þátt í að þjálfa og kenna ungum blaðamönnum réttu tökin á meðan borgarastríðið var í gangi. Hún lýsir því hvernig það hafi orðið erfiðara og erfiðara að stunda blaðamennsku á þessum tíma. Hún hafi þurft að fara huldu höfði og var handtekin í þrígang og yfirheyrð af öryggissveitum.
Í heimildarmyndinni hennar er einmitt fjallað um tvær af þessum handtökum en við þriðju handtökuna glataði hún miklu magni myndefnis af gagnageymslu sem var tekin af henni. Ekki kom þó til að öryggissveitir kæmust yfir gögnin því Lina segir að fólk hafi fljótt lært að dulkóða allt efni sem það geymdi á hörðum diskum og USB-lyklum. Þá hafi hún einnig reynt að koma efni á netþjóna erlendis þegar tækifæri gafst.
Þakkar hún sérstaklega hópi ungra tölvusérfræðinga sem voru í liði með uppreisninni hversu vel það gekk fyrir blaðamenn sem voru ekki hliðhollir stjórnvöldum að halda sér frá kastljósi öryggissveita. Segir hún þessa sérfræðinga, sem flestir voru ungir tölvunarfræðingar sem voru nýkomnir úr námi, hafa aðstoðað blaðamenn að gæta tölvuöryggis síns. Þeir hafi þjálfað blaðamennina beint og í hópum, skrifað leiðbeiningar um hvernig eigi að geyma gögn örugg, sagt hvaða forrit væri best að nota og hvaða forrit ætti ekki að nota út frá öryggissjónarmiðum. Þá hafi þeir einnig leiðbeint blaðamönnum um örugg samskipti og notkun netsins og bent á ókeypis dulkóðunarforrit.
„Ég bókstaflega á þessum mönnum líf mitt að þakka. Ef það hefði ekki verið fyrir þá hefði ég ekki lifað af,“ segir Lina. Vísar hún til þess að þegar hún hafi verið handtekin í Aleppo hafi hún verið með gögn á sér sem voru ekki stjórnvöldum þóknanleg. Slíkt hefði getað kallað á langa fangelsisvist eða þaðan af verra. Þeir hafi hins vegar ekki komist í gögnin.
Lina komst upp með að segja diskinn vera ónýtan en eiginleikar dulkóðunarforritsins sem hún notaði létu diskinn líta þannig út án réttra verkfæra. Hún segir hlægjandi að öryggissveitirnar hafi jafnvel leyft henni að taka með „ónýta“ harða diskinn eftir þetta allt saman.
Hún segir upplifun sína á þessum tíma ekki aðeins hafa haft áhrif á það hvernig hún hagar sér sem blaðamaður, því þessi ár hafi ekki síður haft áhrif á það hvernig hún geti treyst fólki og sitt persónulega líf. Þá takmarki hún enn hvaða tæki og forrit hún noti í öryggisskyni.
En hvernig var að vera blaðamaður í Sýrlandi eftir að uppreisnin hófst og síðar borgarastríðið? Var eitthvað hægt að ræða við fólk og mynda það eftir langan tíma einræðis- og ógnarstjórnar? Lina segir að fyrstu tvö árin hafi fólk á förnum vegi í raun komið til sín að fyrra bragði þegar það sá hana með myndavél því það vildu allir segja sögu sína og benda á ranglæti Assad-stjórnarinnar og koma þeim skilaboðum til umheimsins.
„Fólk vildi segja sína sögu því það taldi hlutverk fjölmiðla mikilvægt til að koma rödd sinni á framfæri og gæti hjálpað til við að steypa stjórnvöldum af stóli,“ segir hún.
Þetta hafi hins vegar breyst eftir um 2 ár af átökum þar sem almenningur hafi búið við endalausar árásir stjórnarhersins og mannfall. Fólk hafi hætt að trúa því að þetta hefði áhrif og taldi umheiminn vera afskiptalausan.
Hins vegar hrinti þetta af stað bylgju miðlunar sem seinna varð undirstaðan fyrir frjálsa fjölmiðlun í landinu. Þannig fór ungt fólk sem hafði áhuga á fjölmiðlun að mæta á fundi mótmælenda og uppreisnarmanna og segja frá því bæði á samfélagsmiðlum, en einnig me þvíð að hringja inn í beinar útsendingar staðarmiðla í útvarpi. Ekkert raunverulegt nafn eða andlit var á bak við slíkt og reyndu þáttastjórnendur oft að hafna slíkum frásögnum, en með tíð og tíma hafi slíkir innhringjendur orðið þekktir út frá orðspori án þess að vitað væri hverjir væru þar á bak við.
Eftir því sem uppreisnarmenn náðu undir sig stærri svæðum fóru sumir af þessari nýju kynslóð fjölmiðlamanna að koma fram undir nafni.
Þá lýsir Lina því hvernig almenningur hópaði sig saman í Facebook-hópum eftir hverfum eða stærri svæðum og sagði þar frá öllu því helsta sem væri að gerast í tengslum við handtökur, sprengingar og annað slíkt.
Sjónarvottur setti kannski fram upphafsinnlegg um atburð og í svörum við það innlegg bætti fólk við skýringum, eða tekist var á um hvað nákvæmlega gerðist þangað til flestir voru orðnir nokkuð sammála um hvað gerðist.
Segir hún að fljótlega hafi fólk áttað sig á trúverðugleika hvers og eins í viðkomandi hópum, hverjir væru með nákvæmar lýsingar, hverjir væru með tengingar hingað og þangað og hverjir væru að ýkja. Með tíð og tíma hafi net þessara Facebook-hópa þróast út í fjölmiðla og nefnir hún að meðal annars hafi gervihnattasjónvarpsstöð sem uppreisnarmenn stóðu fyrir þróast úr þessu umhverfi. „Þetta er svo í dag grunnurinn að því sem er í dag eru sjálfstæðir fjölmiðlar í Sýrlandi.“
Lina segir mikilvægt að skilja eitt þegar kemur að uppreisninni og það er blanda af borgarskipulagi og fjölskylduböndum. Í flestum borgum utan höfuðborgarinnar og í hluta Homs eigi þannig fjölskyldur oft eitt hús saman þar sem afi og amma eru á jarðhæð og börn og barnabörn á efri hæðum. Í sama hverfi sé svo algengast að aðrir úr stórfjölskyldunni búi og hvert hverfi sé því samsett af nokkrum stórfjölskyldum. Hverfi breytist því lítið yfir áratugaskeið.
Þetta olli því að þegar uppreisnin hófst var fólk til að byrja með nokkuð öruggt í sínum hverfum því fjölskyldur stóðu saman og fólk óttaðist ekki að sagt yrði til þeirra. Það gat því talað um óánægju sína með stjórnvöld án þess að óttast miklar afleiðingar. Enda varð það þannig að uppreisnin var sterkust í þeim borgum og hverfum þar sem þetta fyrirkomulag var algengt.
Í Damascus var staðan hins vegar nær því sem þekkist á Vesturlöndum. Í hverri blokk bjuggu sjaldan ættingjar eða nærfjölskyldan saman heldur fólk með mismunandi bakgrunn.
Þá hafi stjórnvöld skipulagt uppbyggingu nýrra úthverfa í Damascus og Homs í nokkra áratugi þannig að auðveldara væri að taka á mótmælendum. Þannig hafi öryggisstofnanir verið með útibú í öðru hverju hverfi, sérstaklega þessum nýrri hverfum. Því hafi alltaf verið stutt í vopnabúr og liðsauka ef eitthvað kom upp á.
Í þessum nýrri hverfum, sem byggð voru upp eftir 1970, hafi stjórn Assads einnig úthlutað miklu af íbúðum til starfsmanna öryggissveita og fjölskyldna þeirra. Þetta voru þó ekki eigna- né leiguíbúðir, heldur var fólk þar án leigusamninga og því háð stjórnvöldum um húsnæði og kallaði þetta kerfi á að alltaf væri sýnd undirgefni og góð hegðun. Þessi hverfi urðu því að eins konar virkjum með mikla nærveru öryggissveita.
Þetta kerfi hefur, nú þegar Assad-stjórnin er fallin, hins vegar skapað ný vandamál þar sem þessar fjölskyldur, sem almennt eru ekki vel liðnar vegna þátttöku í hryllingsverkum Assads, eru í húsnæði í ríkiseigu án þess að vera með leigusamninga. Á sama tíma er mikið um aðrar fjölskyldur sem hafa misst húsnæðið sitt í stríðinu og þær fjölskyldur eru nú að koma til baka eftir að hafa búið í flóttamannabúðum.
Lina segir stjórnvöld nú vera að henda þessum öryggissveitafjölskyldum út því þær eigi ekki rétt á íbúðunum og það sé að valda óstöðugleika og heimilisleysi sem Lina telur að geti valdið auknum vanda þegar fram líða stundir. Það á ekki síst við því hluti þeirra sem höfðu fengið íbúðir var bara almennir ríkisstarfsmenn og komu ekkert að löggæslu- eða öryggismálum.
En það er ekki það eina. Þar sem starfsmenn öryggissveita voru almennt látnir sinna eigin hverfum frekar en að hafa miðlægar deildir sem fóru í aðra borgarhluta þá tóku margir borgarbúar lögin í eigin hendur strax og Assad-stjórnin féll.
„Það sem þetta skapaði var ævilangt hatur og um leið og Assad-stjórnin féll var mjög einfalt fyrir íbúa að taka lögin í eigin hendur og hefna sín því þeir vissu hver hafði drepið börnin sín. Þeir bjuggu við hliðina á þeim, þeir sáu þá á hverjum degi, þeir vita hvar þeir eiga heim, nöfnin þeirra og hvað þeir gera á hverjum degi og hvernig andlit þeirra líta út,“ lýsir Lina stöðunni og tekur fram að næstum ómögulegt sé að fara til baka og brúa bilið milli þessara hópa.
Vonarglæta hafi þó sprottið upp í grasrótinni en Lina nefnir að eins konar borgaralegar friðarnefndir hafi orðið til víða. Þær starfi innan eða á milli nokkurra hverfa og þar verði til sáttargrundvöllur sem leysi úr málum nágranna. Segir hún núverandi stjórnvöld ekki skipta sér mikið af þessu, enda sé geta þeirra takmörkuð, en að þau reyni þó að tengja einhverjar þessara nefnda á æðra stigi til að fá aukna samræmingu.
Á þessum tíma fór Lina í nokkur skipti til Tyrklands og Líbanon vegna starfs síns. Segir hún að meðan hún var ekki eftirlýst hafi það verið nokkuð einfalt. Spurð nánar um hvernig hún vissi hvort hún væri eftirlýst segir hún: „Það er hluti af fangelsisiðnaðinum.“
Lýsir hún því svo að lögreglumenn, starfsmenn á flugvöllum, á landamærum eða jafnvel í öryggissveitum, hafi margir verið stuðningsmenn uppreisnarinnar í leyni en ákveðið að flýja ekki land eða hætta störfum. „Þeir hjálpuðu okkur með að athuga stöðu okkar í gagnagrunnum.“
Einnig hafi aðrir sem ekki studdu uppreisnina flett upp nöfnum gegn greiðslu. Segir hún að með tíma hafi flestir þeirra verið handteknir eða flúið. Það hafi leitt til þess að verðið hækkaði, „en það var samt alltaf leið til að athuga með nafnið þitt ef þú þekktir rétta fólkið.“
Eftir að Rússar hófu bein afskipti af borgarastríðinu með loftárásum árið 2015 segir Lina að hún hafi ákveðið að flýja. Uppreisnarmenn hafi getað staðið upp í hárinu á Assad og stjórnarhernum, en að ómögulegt hafi verið að fara upp gegn hernaðarlegu stórveldi eins og Rússlandi. Í nokkur ár ferðaðist hún um Mið-Austurlönd en fór síðar til Þýskalands og loks til Spánar þar sem hún hefur aðsetur í dag. „Ég get ekki lifað án sólarinnar,“ segir hún hlægjandi.
Hún stundar í dag fjölmiðlun í lausamennsku fyrir hina ýmsu erlendu fjölmiðla og skrifar um ástandið í heimalandinu. Þá leggur hún jafnframt stund á doktorsnám í fjölmiðlunarfræði.
Hún segist reyna að ferðast til Sýrlands reglulega og reynir að vera ekki meira en 2-3 mánuði í burtu frá Sýrlandi í hvert skipti. Segir hún það nauðsynlegt til að fylgjast vel með því það séu svo hraðar og miklar breytingar í gangi.
Hún segir stöðu fjölmiðla í landinu vera á mjög brothættum stað. Reglurnar hafi breyst mikið en að hluta til ekki og það sé mikilvægt fyrir sig að skilja dýnamíkina sem er að byggjast upp. Spurð hvort fjölmiðlar í landinu séu raunverulega sjálfstæðir í dag segir hún það hafa raungerst þó að staðan sé allt önnur en í vestrænum ríkjum.
„Það er mjög ólíklegt að við förum aftur til tíma innihaldslauss heimskulegs áróðurs sem við vorum með áður,“ segir hún. Aðgangur fólks að netinu hafi breytt miklu og í dag fylgist Sýrlendingar með fjölda miðla sem hafi byggst upp af aðgerðasinnum, einstaklingum og alls konar hópum í stað þess að fá bara ríkisfjölmiðlalínuna.
„Blaðamenn eru klárlega í mun betri stöðu með núverandi stjórnvöld en með stjórn Assad,“ bætir Lina við. Það þýðir að hennar mati þó ekki að tjáningarfrelsi sé að fullu virt. „Það er barátta sem við eigum hvern einasta dag.“
Hún tekur sérstaklega fram hvernig tjáningarfrelsið er meira en áður. Nú sé hægt að vera með raunverulega fjölmiðla þar sem fólk kemur fram undir nafni og segir skoðun sína. „Fólk hverfur ekki lengur í neðanjarðardýflissu fyrir að segja frá.“ Lina tekur fram að mögulega hljómi þetta ekki eins og einhver glæsileg staða miðað við alþjóðleg viðmið, en fyrir Sýrland sé þetta stórt skref áfram.
Alls konar hindranir eru þó enn í vegi fjölmiðla í Sýrlandi og nefnir Lina að núverandi stjórnvöld séu ekkert allt of áhugasöm um aukið gegnsæi í stjórnsýslu og svari lítið eða ekki fyrir ýmsar aðgerðir og stefnur.
Almenningur í Sýrlandi hefur undanfarna áratugi þurft að kljást við upplýsingaóreiðu og áróður og spurð hvort fólk í landinu sé ekki vel fallið til þess að takast á við slíkt á tímum sem þessum, þar sem upplýsingaóreiða dafnar sem aldrei fyrr. Lina segir fjölmiðlafólk og þá sem láti sig þessa hluti varða séu mjög meðvitaðir um upplýsingaóreiðu og séu vel í stakk búnir að takast á við óreiðuna. Hins vegar trúi almenningur oft frekar vinsælum áhrifavöldum en fjölmiðlum sem hafi starfað síðustu 15 árin.
Segir hún almenning vita að margir ljúgi, ýki og sé ekki hægt að treysta og þá sé tilfinning fólks að trúa því sem það vill heyra. Segir hún almenning í Sýrlandi vera uppgefinn á slæmum fréttum og vill trúa að núverandi stjórnvöldum takist að loka þessum kafla þannig að átökunum ljúki fyrir fullt og allt. „Maður hljómar alltaf eins og vonda manneskjan sem kemur bara með slæmar fréttir,“ segir Lina.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
