Flugumferð hófst að nýju, að hluta til, á flugvellinum í München í Þýskalandi fyrr í dag eftir að tvær tilkynningar bárust um dróna á svæðinu á tveimur dögum.
Samkvæmt tilkynningu frá flugvellinum má búast við talsverðum töfum á flugferðum áfram.
Rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi sáu lögreglumenn tvo dróna yfir norður- og suðurbrautum vallarins en þeir hurfu á brott áður en unnt var að bera kennsl á þá.
Í kjölfarið var 23 ferðum vísað frá vellinum og tólf brottförum aflýst.
Svipað atvik átti sér stað kvöldið áður þegar báðar flugbrautir voru lokaðar um tíma. Þá var yfir 30 flugferðum aflýst og um 3.000 farþegar sátu eftir.
Drónar hafa einnig valdið truflunum á flugi í Danmörku, Noregi og Póllandi að undanförnu. Stjórnvöld í Rúmeníu og Eistlandi hafa kennt Rússum um.
Þýsk stjórnvöld munu á næstu dögum leggja fram lagabreytingu sem heimilar hernum að skjóta niður dróna ef brýna nauðsyn ber til.
