„Það var komið fram við okkur eins og dýr“

137 aðgerðasinnar sem voru um borð í Frelsisflotanum eru komnir …
137 aðgerðasinnar sem voru um borð í Frelsisflotanum eru komnir til Tyrklands og fjölmenni mætti við flugvöllinn í Istanbúl til að taka á móti þeim. AFP

Aðgerðasinnar Frelsisflotans segjast hafa verið beittir andlegu og líkamlegu ofbeldi af Ísraelsmönnum á meðan þeir voru í haldi í Ísrael.

Greint var frá fyrr í dag að 137 aðgerðasinnar Frelsisflotans hefðu verið sendir til Tyrklands frá Ísrael. Aðgerðasinnarnir voru hluti af um 400 manna samfloti 42 báta sem voru á leið til Gasa með hjálpargögn, þar á meðal er Margrét Kristín Blöndal, betur þekkt sem Magga Stína. Óvíst er hvar hún er niður komin nú.

„Þeir hlógu að okkur, móðguðu okkur og börðu okkur“

„Við vorum stöðvuð af gríðarlegum fjölda herskipa,“ segir ítalski aðgerðasinninn Paolo Romano, við AFP-fréttaveituna á flugvellinum í Istanbúl, og nefnir jafnframt að allir bátar frelsisflotans hafi verið teknir yfir af þungvopnuðum hermönnum.

Að sögn Romano voru aðgerðasinnarnir neyddir til að krjúpa með andlit sín niður og voru lamdir ef þeir hreyfðu sig.

„Þeir hlógu að okkur, móðguðu okkur og börðu okkur.“ segir Romano.

Vel var tekið á móti aðgerðasinnunum fyrr í dag í …
Vel var tekið á móti aðgerðasinnunum fyrr í dag í Tyrklandi. AFP

Neitað um vatn

Þá segir hann hermennina hafa reynt að þvinga hópinn til að viðurkenna að þeir hefðu farið ólöglega inn í Ísrael.

„En við fórum aldrei inn í Ísrael. Við vorum á alþjóðlegu hafsvæði og áttum fullan rétt á að vera þar.“

Aðgerðasinnarnir voru fyrst um sinn fluttir til Ísrael þar sem Romano segir þeim hafa verið komið fyrir í fangelsi og ekki gefið vatn.

„Á nóttunni opnuðu þeir dyrnar og hrópuðu á okkur með byssur til að hræða okkur,“ segir Romano og bætir við:

„Það var komið fram við okkur eins og dýr.“

Annar aðgerðasinni, hin 28 ára Iylia Balqis frá Malasíu, lýsir aðgerðum Ísraelshers sem hennar verstu lífreynslu.

Hún segir aðgerðasinnana hafa verið handjárnaða og neitað um vatn.

Aðgerðasinnarnir Steeve Lemerier, Romain Mouron og Immanuel de Souza, eru …
Aðgerðasinnarnir Steeve Lemerier, Romain Mouron og Immanuel de Souza, eru frá Sviss. AFP

Mun reyna aftur

Malik Qutait, aðgerðasinni frá Líbíu, segir að hann muni ekki gefast upp:

„Ég mun safna saman hóp, útvega lyf, hjálpargögn og bát og ég mun reyna aftur.“

Tyrknesk stjórnvöld hafa fordæmt aðgerðir Ísraelsmanna og kallað þær hryðjuverk. Þá greindu þau frá því á fimmtudag að rannsókn væri hafin á málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert