Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hvatt Hamas-samtökin til að bregðast hratt við og samþykkja friðarsamkomulag við Ísrael, ella eigi þau von á frekar eyðileggingu á Gasasvæðinu.
„Ég mun ekki líða neinar tafir,“ skrifar Trump á dreifimiðli sínum.
„Látum þetta ganga í gegn - HRATT.“
Bandaríkjaforsetinn segist jafnframt þakklátur fyrir að Ísrael hafi í bili stöðvað loftárásir sínar til að gefa losun gísla og friðaráætluninni tækifæri til að ná fram að ganga.
Almannavarnir á Gasa hafa hins vegar greint frá því að Ísraelsmenn hafi haldið áfram loftárásum á Gasaborg þrátt fyrir yfirlýsingu Trumps um að árásum hersins yrði tafarlaust hætt.
