Framkvæmdastjóra SOS Barnaþorpanna, alþjóðlegra hjálparsamtaka fyrir munaðarlaus og yfirgefin börn, hefur verið vikið frá störfum í kjölfar ásakana um misnotkun á heimilum í Austurríki, að því er framkvæmdastjórn samtakanna tilkynnti í dag.
Christian Moser, sem hefur stýrt samtökunum í 17 ár, hefur verið leystur undan öllum skyldustörfum á meðan beðið er niðurstöðu úttektar á starfseminni.
Austurrískir saksóknarar tilkynntu sérstaklega í liðinni viku að þeir hefðu hafið rannsókn eftir fregnir af meintri misnotkun á börnum á umönnunarheimili sem rekið er af SOS Barnaþorpunum í Austurríki, en samtökin reka 572 deildir í meira en 130 löndum.
„Framkvæmdastjórnin telur að barnavernd, gagnsæi og meðferð staðreynda séu í algerum forgangi,“ sagði Irene Szimak, stjórnarformaður framkvæmdastjórnar SOS Barnaþorpanna í Austurríki.
Hjálparsamtökin sögðu þann 17. september að þau væru að hefja ytri úttekt á verklagsreglum sínum eftir að vikuritið Falter birti frétt þar sem því var haldið fram að börn hefðu verið beitt misnotkun á heimili samtakanna í Moosburg í suðvesturhluta Austurríkis á árunum 2008 til 2020.
Falter hélt því fram að börn og unglingar hefðu verið barin, lokuð inni og ljósmynduð nakin í mörg ár.
Meint misnotkun var aldrei gerð opinber þrátt fyrir ítarlega innri skýrslu árið 2020.
Frá því að frétt Falter birtist hafa komið fram svipaðar ásakanir um barnaþorpin í Imst í Týról og Seekirchen nálægt Salzburg.
Saksóknarar í Klagenfurt, Innsbruck og Salzburg eru nú með málin til rannsóknar.
Moser hefur enn sem komið er ekki brugðist opinberlega við brottvikningu sinni.
Árið 2022 sögðu SOS Barnaþorpin að stór styrktaraðili hefði verið bendlaður við kynferðisofbeldi gegn börnum á einu af heimilum samtakanna í Asíu.
Árið áður sögðu hjálparsamtökin að þau væru að rannsaka mál um ofbeldi, sérstaklega kynferðisofbeldi, og svik sem framin voru frá tíunda áratugnum og síðar í um 20 af starfsstöðvum þeirra í Afríku og Asíu.