Ungir tölvusérfræðingar eru meðal þeirra sem unnu mikið og mikilvægt starf sem bjargaði líklega lífi margra sýrlenskra blaða- og fréttamanna meðan borgarastríðið átti sér stað í landinu. Lina, fréttakona, heimildarmyndagerðarkona og aðgerðasinni, ræddi við mbl.is um stöðu fréttafólks á stríðstímanum og framtíðarhorfur landsins segir þennan hóp hafa bjargað sínu lífi og fleiri í svipaðri stöðu.
Lina, sem gengur aðeins undir fyrra nafni sínu í öryggisskyni, var um 28 ára þegar uppreisnin byrjaði árið 2011 í heimalandinu. Sjálf þurfti hún að fara huldu höfði og hylja slóð sína til að forðast ofsóknir stjórnvalda til að geta kvikmyndað þessa sögulegu atburði, en heimildarmynd hennar 5 seasons of Revolution var sýnd á Riff-kvikmyndahátíðinni fyrr í vikunni. Þar segir frá sögum kvenna meðan á átökunum stendur.
Lina var handtekin í þrígang á þessum tíma og yfirheyrð af öryggissveitum. Ekki kom þó til að öryggissveitir kæmust yfir gögnin því Lina segir að fólk hafi fljótt lært að dulkóða allt efni sem það geymdi á hörðum diskum og USB-lyklum. Þá hafi hún einnig reynt að koma efni á netþjóna erlendis þegar tækifæri gafst.
Þakkar hún sérstaklega hópi ungra tölvusérfræðinga sem voru í liði með uppreisninni hversu vel það gekk fyrir blaðamenn sem voru ekki hliðhollir stjórnvöldum að halda sér frá kastljósi öryggissveita. Segir hún þessa sérfræðinga, sem flestir voru ungir tölvunarfræðingar sem voru nýkomnir úr námi, hafa aðstoðað blaðamenn að gæta tölvuöryggis síns.
Þeir hafi þjálfað blaðamennina beint og í hópum, skrifað leiðbeiningar um hvernig eigi að geyma gögn örugg, sagt hvaða forrit væri best að nota og hvaða forrit ætti ekki að nota út frá öryggissjónarmiðum. Þá hafi þeir einnig leiðbeint blaðamönnum um örugg samskipti og notkun netsins og bent á ókeypis dulkóðunarforrit.
„Ég bókstaflega á þessum mönnum líf mitt að þakka. Ef það hefði ekki verið fyrir þá hefði ég ekki lifað af,“ segir Lina. Vísar hún til þess að þegar hún hafi verið handtekin í Aleppo hafi hún verið með gögn á sér sem voru ekki stjórnvöldum þóknanleg. Slíkt hefði getað kallað á langa fangelsisvist eða þaðan af verra. Þeir hafi hins vegar ekki komist í gögnin.
Ítarlegt viðtal við Linu má lesa hér.