Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði Hamas eiga von á „gjöreyðileggingu“ ef samtökin neita að láta af stjórn á Gasa.
Þetta sagði Trump við blaðamann CNN aðspurður hvað myndi gerast ef Hamas krefðust þess að halda völdum.
Samkvæmt friðaráætlun Trumps verður Gasasvæðinu stjórnað af tímabundinni bráðabirgðastjórn ópólitískrar og tæknilegar palestínskrar nefndar, sem mun bera ábyrgð á daglegri stjórn opinberrar þjónustu og stofnanna fyrir fólkið á Gasa. Nefndin á að vera skipuð hæfum Palestínumönnum og alþjóðlegum sérfræðingum.
Forsetinn sagðist búast við svörum „bráðum“ um hvort Hamas vildu í raun og veru frið.
„Já með Bibi,“ svaraði Trump spurður hvort Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, væri reiðubúinn að hætta árásum á Gasa og styddi friðarsýn Trumps.
Trump sagðist bjartsýnn á að samningar um vopnahlé næðust og lagði áherslu á að hann ynni hart hörðum höndum að því.
Samningaviðræður Ísraelsmanna og Hamas fara fram í gegnum milliliði í Kaíró í Egyptalandi í dag og á morgun.
Trump sagði í gær að þegar Hamas samþykkir vopnahlé muni það hefjast samstundis og byrjað verði að skiptast á föngum og gíslum.
