Blöðrur með sígarettum röskuðu flugumferð

Flugvöllurinn í Vilníus, höfuðborg Litháen.
Flugvöllurinn í Vilníus, höfuðborg Litháen. Ljósmynd/Wikipedia.org

Meira en 20 blöðrur með áföstum sígarettum sem átti að smygla röskuðu starfsemi flugvallar í Vilníus í Litháen í nótt. Blöðrurnar komu frá Hvíta-Rússlandi. 

Röskun varð á flugi frá klukkan 22:15 til 4:40 á staðartíma að sögn yfirvalda í Litháen. Um 30 flugferðum var aflýst, seinkað eða þeim beint annað. 

Um 25 blöðrur fóru inn í lofthelgi Litháen, þar af tvær nærri flugvellinum í Vilníus. Ellefu blöðrur fundust í morgun. 

Álíka blöðrur komu til Litháen fyrr á árinu. Landamæravörðum hefur verið heimilað að skjóta þær niður frá því í fyrra. 

Smyglarar hafa notað slíkar blöðrur til að flytja hvítrússneskar sígarettur sem eru síðan seldar í ríkjum Evrópusambandsins þar sem tóbak er dýrara. 

Litháen skráði komu 966 slíkra blaðra í fyrra. 544 hafa komið inn í lofthelgi landsins það sem af er ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka