Demókratar ráði hvenær stofnanir opni á ný

Þinghús Bandaríkjanna.
Þinghús Bandaríkjanna. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Bandarískar ríkisstofnanir munu vera lokaðar eins lengi og Demókrataflokkurinn vill hafa þær lokaðar. 

Þetta sagði John Thune, öldungadeildarþingmaður Repúblikanflokksins, í spjallþættinum Sunday Morning Futures á sjónvarpsstöðinni Fox News fyrr í dag. 

Ónafngreindur þingmaður Demókrataflokksins segir viðræður hafa staðið í stað síðan á mánudaginn og því sé engin leið að vita hve lengi lokanir muni standa yfir. 

Stór hluti ríkisstofnanna í Bandaríkjunum hafa verið lokaðar frá því á miðvikudaginn sökum þess að þinginu auðnaðist ekki að afgreiða fjáraukalög sem tryggt hefðu afkomu stofnananna eða að minnsta kosti gert þeim kleift að halda áfram rekstri ýmissa verkefna sem þeim er ekki lögboðið að sinna.

Starfsmenn verða reknir

Lokanir sem þessar hafa oft áður átt sér stað í Bandaríkjunum í kjölfar deilna um afgreiðslu fjárlaga á þinginu. 

Ríkisstarfsmenn hafa hingað til verið sendir í tímabundið leyfi á meðan á lokunum stendur en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hins vegar sagst ekki muna hika við það að segja ríkisstarfsmönnum upp án þess að ráða þá aftur,  ef viðræður þingflokkanna skila ekki skjótum árangri. 

„Ef forsetinn telur viðræður ekki vera að skila árangri munu uppsagnir fylgja í kjölfarið. Ég tel samt að demókratar muni sjá að það er ekki rökrétt að fara í slíkar uppsagnir og munu því að endingu komast að samkomulagi,“ sagði Kevin Hassett, yfirmaður þjóðhagsráðs Bandaríkjanna, í viðtali á CNN í dag. 

Trump hyggst reka ríkisstarfsmenn skili viðræður ekki árangri.
Trump hyggst reka ríkisstarfsmenn skili viðræður ekki árangri. AFP

Hafa miklar áhyggjur af stöðunni

Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni, sagði í viðtali fyrr í dag að fjárlögin sem repúblikanar leggi til muni leiða til skerðinga og aukinna álaga fyrir tugi milljóna Bandaríkjamanna. 

Mikill meirihluti bandarísku þjóðarinnar telur bæði repúblikana og demókrata hafa staðið sig illa í málinu en samkvæmt könnun á vegum sjónvarpsstöðvarinnar CBS hafa flokkarnir báðir stuðning undir 30% Bandaríkjamanna vegna málsins. 

Í sömu könnun sögðu nær helmingur aðspurðra að þeir hefðu miklar áhyggjur af stöðu mála en aðeins 20 prósent sögðust ekki hafa áhyggjur. 

Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni.
Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni. ANNA MONEYMAKER
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert