Dregin á hárinu, barin og neydd til að kyssa fánann

Greta Thunberg og brasilíski aðgerðarsinninn Thiago Avila er þau voru …
Greta Thunberg og brasilíski aðgerðarsinninn Thiago Avila er þau voru handtekinn 1. október. AFP/Utanríkisráðuneyti Ísrael

Umhverfisverndarsinninn Greta Thunberg hefur sætt ómannúðlegri meðferð í varðhaldi Ísraelsríkis eftir að hafa verið handtekin um borð í Frelsisflotanum, sem var á leið með hjálpargögn til Gasa, í vikunni.

Þetta kemur fram í bréfaskrifum Thunbergs við sænsk yfirvöld sem breska dagblaðið The Guardian hefur í fórum sér.

Lítið drykkjarvatn og veggjalýs

Samkvæmt upplýsingum sænska utanríkisráðuneytisins hefur Thunberg verið látin dúsa í litlum fangaklefa, vatn og matur hafa verið af skornum skammti og hún er alsett útbrotum vegna veggjalúsar.

Þá hefur hún verið mynduð haldandi á hinum ýmsu fánum, ekki er þó gerð grein fyrir hvaða fánar það voru.

Hárreitt og barin

Tyrkneski aðgerðarsinninn Ersin Çelik sagði í viðtali við tyrkneska fjölmiðla að ísraelskir hermenn hefðu dregið Thunberg á hárinu, barið hana í sífellu og neytt hana til að kyssa ísraelska fánann.

Ítalski blaðamaðurinn Lorenzo D’Agostino sagði hana hafa verið vafða í ísraelska fánann og sýnda sem einhvers konar verðlaunagrip.

Thunberg var meðal 437 aðgerðarsinna, þingmanna og lögmanna sem voru hluti af Global Sumud-frelsisflotanum, sem samanstóð af meira en 40 skipum.

Allir um borð voru handteknir milli fimmtudags og föstudags þegar flotinn var stöðvaður.

Flestir eru nú vistaðir í fangelsinu Ketziot í Negev-eyðimörkinni í Ísrael.

Um kerfisbundin brot að ræða

Mannréttindasamtökin Adalah hafa sakað Ísrael um kerfisbundin brot á réttindum þeirra sem handteknir voru.

Í yfirlýsingunni segir að aðgerðarsinnar hafi verið sviptir drykkjarvatni, hreinlætisaðstöðu, lyfjum og aðgangi að lögmönnum.

Þetta er í annað skiptið á þessu ári sem Thunberg er handtekin af Ísraelsríki. Í fyrra skiptið var henni vísað úr landi ásamt öðrum.

Utanríkisráðuneyti Ísraelsmanna hefur neitað ásökunum í færslu á X og segja þær „ósvífnar lygar“. 

Í færslunni sagði að öll réttindi fanga séu virt og bætt er við að Thunberg og aðrir aðgerðarsinnar hefðu neitað að flýta brottvísun sinni. 

Thunberg í bátnum á leið til Gasa.
Thunberg í bátnum á leið til Gasa. AFP/Luis Gene
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert