Fimm voru drepnir í árásum Rússa á héruðin Saporisjía og Lvív í Úkraínu í nótt. Tugir þúsunda eru án rafmagns vegna umfangsmikilla skemmda á orkuinnviði.
Loftvarnarflautur ómuðu um alla Úkraínu á fimmta tímanum í nótt á staðartíma.
Fjórir voru drepnir og fjórir særðust í árásum á Lvív. Einn var drepinn og tíu særðust í Saporisjía. Drónaárásir voru meðal annars gerðar á íbúahverfi.
Ivan Ferov, héraðsstjóri Saporisjía, sagði að 16 ára stúlka væri á meðal særðra.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði að um 50 flugskeyti og 500 drónar hefðu sést í lofthelgi Úkraínu í nótt.
„Rússarnir réðust enn og aftur á innviði okkar – allt sem tryggir fólkinu okkar eðlilegt líf,“ sagði hann og kallaði eftir aukinni hernaðaraðstoð.
Pólski herinn greindi frá því á samfélagsmiðlinum X að hann hefði sent herflugvélar á loft og sett landvarnir í hæstu viðbragðsstöðu til að tryggja lofthelgi landsins, sérstaklega við landamærin að Úkraínu.
