Irakli Kobakhidze, forsætisráðherra Georgíu hefur sagt stjórnarandstæðinga mega eiga von á því að vera handteknir í kjölfar mótmæla í landinu sem hófust í gær.
Mótmælin hófust vegna sveitarstjórnarkosninga í landinu sem fram fóru í gær en Georgíski draumurinn, flokkur forsætisráðherrans, vann þar stórsigur samkvæmt opinberum tölum.
Georgíski draumurinn hefur í gegnum tíðina verið sakaður um kosningasvindl, sér í lagi eftir þingkosningarnar í fyrra en flestir stjórnarandstöðuflokkar landsins sniðgengu kosningar gærdagsins.
Á meðan á kosningum gærdagsins stóð héldu tugir þúsunda mótmælenda út á götur höfuðborgarinnar, Tíblisi, eftir að leiðtogar stjórnarandstöðunnar höfðu sagt þetta vera seinasta möguleikann til að bjarga lýðræði Georgíu.
Mótmælendur reyndu meðal annars að brjóta sér leið inn í forsetahöllina í höfuðborginni en lögregla hélt mótmælendunum í burtu með því að beita þá táragasi.
Mótmælin standa nú enn yfir og heita mótmælendur því að halda áfram þangað til ríkisstjórnin lætur af völdum.
„Við vorum risastór hópur í gær en í dag erum við örlítið færri, við munum sigra á endanum og þessi óréttmæta ríkisstjórn mun hrökklast frá völdum,“ segir Nato Tsomaia, 23 ára mótmælandi, í samtali við þarlenda fréttamenn.
Forsætisráðherra tilkynnti í dag að fimm manns hefðu verið handteknir sakaðir um að ætla að gera byltingu í landinu. Meðal þeirra sem voru handteknir er óperusöngvarinn Paata Burchuladze, en hann á yfir höfði sér níu ára fangelsisdóm.
„Það mun enginn sleppa við refsingu, miklu meira mega eiga von á því að dúsa í fangelsi vegna ofbeldisins sem lögreglumenn og stjórnmálamenn voru beittir í gær,“ segir forsætisráðherrann í yfirlýsingu.
Ríkisstjórnin segir að mikið magn skotvopna og skotfæra hafi fundist í skógi í námunda við Tíblisi og telur stjórnin sig hafa komið í veg fyrir blóðuga byltingu.
Fyrir þingkosningarnar umdeildu í fyrra hafði Georgía sótt um inngöngu í Evrópusambandið en síðan þá hefur umsóknin verið fryst.
Kaja Kallas, utanríkismálastjóri ESB, gaf frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hún hvatti ríkisstjórnina til að sýna stillingu og tryggja réttinn til mótmæla.