Karlmaður á fimmtugsaldri lést eftir að hafa orðið fyrir skotárás við mosku í Ishøj, úthverfi Kaupmannahafnar á föstudag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá dönsku lögreglunni.
Annar maður, rétt um fertugt, var handtekinn skömmu síðar og hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Hann hefur gengist við því að hafa skotið manninn en heldur því fram að hann hafi gripið til þess í sjálfsvörn.
Að sögn lögreglu tengist málið hvorki átökum í glæpagengjum né bifhjólasamtökum.
Mennirnir tveir þekktust vel og höfðu átt í deilum um árabil.
Báðir höfðu verið við bænahald í moskunni þegar átökin blossuðu upp.
