Ljón réðst á barn í Tælandi

Hér má sjá ljónið umrædda hlekkjað við eldhúsborð.
Hér má sjá ljónið umrædda hlekkjað við eldhúsborð. AFP

Ljón, sem haldið var á heimili í vesturhluta Tælands, slapp úr búri sínu og réðist á ungan dreng aðfaranótt laugardags.

Drengurinn hlaut áverka og var fluttur á sjúkrahús samkvæmt tilkynningu frá dýraverndunarstofnun landsins.

Var á leið heim þegar hann mætti ljóninu

Atvikið átti sér stað í Kanchanaburi-héraði, um tveggja tíma akstur frá höfuðborginni Bangkok.

Samkvæmt tælenskum miðlum var drengurinn á leið heim eftir að hafa verið úti að leika sér með vinum sínum þegar ljónið réðst á hann.

Eigandi ljónsins, sem ber nafnið Parinya, hefur verið ákærður fyrir brot á lögum um verndun villtra dýra.

180.000 kr. í sekt

Honum gæti verið gert að sæta allt að sex mánaða fangelsi og greiða sekt sem nemur um 50 þúsund bahtum, eða um 180.000 krónum, verði hann sakfelldur.

Ljónið var tekið í vörslu yfirvalda og verður flutt í búsetu hjá viðurkenndri stofnun sem annast villt dýr.

Parinya sagði í viðtali við sjónvarpsstöð í Bangkok að hann væri miður sín yfir atvikinu. Hann kvaðst ætla að bæta tjónið og greiða fyrir læknismeðferð drengsins.

„Ég biðst afsökunar á því sem gerðist, þetta var slys,“ sagði hann og útskýrði að ljónið hefði sloppið úr búri sem verið var að gera við.

Fólk verður að átta sig á hættunni

Dýraverndunarstofnun Tælands hvatti í kjölfar atburðarins alla þá sem eiga villt dýr til að gera sér grein fyrir hættunni sem því fylgir.

Eigendur ljóna í Tælandi hafa þurft að skrá og merkja dýrin frá árinu 2022 auk þess sem þeir verða að tilkynna yfirvöldum ef dýrin eru flutt til.

Ekki einsdæmi

Í síðasta mánuði lést starfsmaður í dýragarði nærri Bangkok eftir að hafa orðið fyrir árás nokkurra ljóna.

Atvikið vakti þá upp gagnrýni á starfsemi garðsins sem býður ferðamönnum upp á að fæða ljón og tígrisdýr gegn greiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert