Mikilvægar viðræður hefjast í dag

Sendinefndir Ísraelsmanna og Hamas halda til í Kaíró í Egyptalandi í dag til að funda um vopnahlé. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sagðist vona að frelsun gísla á Gasa færi fram á næstu dögum. 

Viðræðurnar eru haldnar í kjölfar jákvæðra viðbragða Hamas á föstudag við friðaráætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem hann lagði fram á mánudag um frelsun gíslanna gegn því að sleppa fjölmörgum palestínskum föngum. 

Netanjahú sagði í gær að hann hefði fyrirskipað að senda samninganefnd til Egyptalands til þess að „ganga frá tæknilegum atriðum“.

Yfirvöld í Kaíró staðfestu að einnig yrði tekið á móti sendinefnd Hamas til viðræðna um „aðstæður á vettvangi og smáatriði varðandi skipti á öllum ísraelskum gíslum og palestínskum föngum“.

Fjölmiðlar í Egyptalandi greindu frá því að fundað verði í gegnum milliliði í dag og á morgun.

Á þriðjudag, 7. október, eru tvö ár frá hryðjuverkaárás Hamas sem leiddi til stríðsins. 

Munu afvopna Hamas

Hvíta húsið sendi tvo fulltrúa til Egyptalands í gær, Jared Kushner, tengdason Trumps, og Steve Witkoff erindreka. 

Trump hefur sagt að hann muni ekki „liða neinar tafir“ frá Hamas. 

„Þegar Hamas samþykkir mun vopnahlé strax taka gildi,“ sagði í færslu Trumps á Truth Social. 

Jared Kushner og Steve Witkoff eru fulltrúar Bandaríkjanna í viðræðunum.
Jared Kushner og Steve Witkoff eru fulltrúar Bandaríkjanna í viðræðunum. AFP

Í sjónvarpsávarpi sagði Netanjahú gíslarnir kæmu heim á meðan laufskálahátíðin stendur yfir (sukkot). Um er að ræða vikulanga þakkarhátíð gyðinga sem hefst á mánudag.

„Hamas verður afvopnað... annaðhvort með diplómatískum leiðum samkvæmt áætlun Trumps eða með hervaldi af okkar hálfu.“

Árásir í nótt

Þrátt fyrir ákall Trumps um að hætta árásum hafa Ísraelsmenn haldið áfram að herja á Gasa. 

Almannavarnir á Gasa greindu frá því að að minnsta kosti fimm hefðu verið drepnir í Gasaborg í morgun. 

Í gær voru um 60 manns drepnir í árásum Ísraelsmanna, þar af 40 í Gasaborg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert