Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heimilað að senda þjóðvarðlið til Chicago í Illinois í kjölfar þess að alríkislögreglumaður skaut ökumann sem sagður var vopnaður í gær. Á sama tíma reyndi dómari að koma í veg fyrir að þjóðvarðlið yrði sent til Portland í Oregon, annarrar borgar sem stýrt er af demókrötum.
„Trump forseti hefur heimilað að senda 300 þjóðvarðliða til þess að vernda alríkislögreglumenn og -innviði“ í Chicago sagði í yfirlýsingu Abigail Jackson, talskonu Hvíta hússins.
Repúblikanar hafa hótað í margar vikur að senda þjóðvarðlið til borgarinnar gegn vilja borgaryfirvalda.
„Trump forseti mun ekki horfa fram hjá þeirri lögleysu sem herjar á bandarískar borgir,“ sagði í yfirlýsingu Jackson.
Dick Durbin, öldungadeildarþingmaður í Illinois, sagði aðgerðirnar „skammarlegan kafla í sögu þjóðarinnar“, og bætti við að Trump hefði ekki í hyggju að berjast gegn glæpum. „Hann ætlar sér að dreifa ótta.“
Þjóðvarðlið hefur þegar verið sent til Los Angeles og Washington-borgar fyrr á árinu. Aðgerðirnar eru hluti af stefnu forsetans um að bregðast við ofbeldisglæpum og herða aðgerðir gegn innflytjendum í bandarískum stórborgum.
Grímuklæddir vopnaðir menn í ómerktum bílum sem beindu spjótum sínum að íbúðahverfum og fyrirtækjum leiddu til harðra mótmæla í báðum borgum.
Trump hefur sagt Portland „stríðshrjáða“ og morandi í ofbeldisglæpum.
Í dómsúrskurði Karin Immergut héraðsdómara, sem gefinn var út í gær, sagði að „ákvörðun forsetans væri einfaldlega úr lausu lofti gripin“.
Snemma í gærmorgun skaut alríkislögreglumaður ökumann í Chicago eftir að lögrelgumenn voru „króaðir af 10 bílum“, að sögn heimavarnarráðuneytisins (DHS).
Lögreglan gat ekki hreyft bíla sína eða stigið út úr þeim. „Einn ökumannanna keyrði á lögreglubíl og var vopnaður hálfsjálfvirku vopni,“ sagði í yfirlýsingu DHS.
„Lögreglan neyddist til þess að beita vopnum sínu og skjóta varnarskotum að vopnuðum bandarískum ríkisborgara.“
Samkvæmt yfirlýsingunni leitaði ökumaðurinn sjálfur á sjúkrahús þar sem hugað var að sárum hans.