„Það sem þetta skapaði var ævilangt hatur“

Hermaður hliðhollur nýrri stjórn Sýrlands heldur á höfði styttu af …
Hermaður hliðhollur nýrri stjórn Sýrlands heldur á höfði styttu af Bassel-al-Assad, elsta syni fyrrverandi forsetans Hafez al-Assad. AFP

Eftir að stjórn Assad-fjölskyldunnar tók völd í Sýrlandi í byrjun áttunda áratugarins hófu stjórnvöld skipulega að byggja ný hverfi þannig að auðvelt væri að brjóta mótmæli á bak aftur, fylgjast með andstöðu og skapa ótta við einhvers konar andúð gegn stjórnvöldum.

Í dag, eftir að stjórn Assads var steypt af stóli, hefur þetta kerfi skapað ný vandamál og hefur almenningur ítrekað tekið lögin í eigin hendur og hefnt sín á þeim sem hliðhollir voru Assad.

Þetta er á meðal þess sem Lina, fréttakona, heimildarmyndagerðarkona og aðgerðasinni, segir í viðtali við mbl.is. Lina ræddi meðal annars stöðu fréttafólks á stríðstímanum og framtíðarhorfur landsins með nýrri stjórn.

Lina, sem gengur aðeins undir fyrra nafni sínu í öryggisskyni, var um 28 ára þegar uppreisnin byrjaði árið 2011 í heimalandinu. Sjálf þurfti hún að fara huldu höfði og hylja slóð sína til að forðast ofsóknir stjórnvalda til að geta kvikmyndað þessa sögulegu atburði, en heimildarmynd hennar 5 seasons of Revolution var sýnd á Riff-kvikmyndahátíðinni fyrr í vikunni. Þar segir frá sögum kvenna meðan á átökunum stendur.

Lina segir að stjórn Assad-fjölskyldunnar hafi í tilraunum sínum til að tryggja völd sín skipulagt uppbyggingu nýrra úthverfa í höfuðborginni Damascus og Homs í nokkra áratugi þannig að auðveldara væri að taka á mótmælendum. Þannig hafi öryggisstofnanir verið með útibú í öðru hverju hverfi, sérstaklega þessum nýrri hverfum. Því hafi alltaf verið stutt í vopnabúr og liðsauka ef eitthvað kom upp á.

Lina er sýrlensk fjölmiðla- og heimildargerðarkona sem segir sögu kvenna …
Lina er sýrlensk fjölmiðla- og heimildargerðarkona sem segir sögu kvenna í uppreisninni og síðar borgarastríðinu í Sýrlandi í heimildarmynd sinni 5 seasons of Revolution. Hún ræddi við mbl.is um stöðu mála í Sýrlandi og hindranir sem standa í vegi fyrir stöðugleika og friði. mbl.is/Karítas

Upphafið að nýju vandamáli

Í þessum nýrri hverfum, sem byggð voru upp eftir 1970, hafi stjórn Assads einnig úthlutað mikið af íbúðum til starfsmanna öryggissveita og fjölskyldna þeirra. Þetta voru þó ekki eigna- né leiguíbúðir, heldur var fólk þar án leigusamninga og því háð stjórnvöldum um húsnæði og kallaði þetta kerfi á að alltaf væri sýnd undirgefni og góð hegðun. Þessi hverfi urðu því að eins konar virkjum með mikla nærveru öryggissveita.

Þetta kerfi hefur nú þegar Assad-stjórnin er fallin hins vegar skapað ný vandamál þar sem þessar fjölskyldur, sem almennt eru ekki vel liðnar vegna þátttöku í hryllingsverkum Assads, eru í húsnæði í ríkiseigu án þess að vera með leigusamninga. Á sama tíma er mikið um aðrar fjölskyldur sem hafa misst húsnæðið sitt í stríðinu og þær fjölskyldur eru nú að koma til baka eftir að hafa búið í flóttamannabúðum.

Lina segir stjórnvöld nú vera að henda þessum öryggissveitafjölskyldum út því þær eigi ekki rétt á íbúðunum og það sé að valda óstöðugleika og heimilisleysi sem Lina telur að geti valdið auknum vanda þegar fram líða stundir. Það á ekki síst við því hluti þeirra sem höfðu fengið íbúðir var bara almennir ríkisstarfsmenn og komu ekkert að löggæslu- eða öryggismálum.

Borgaralegar friðarnefndir grípa inn í

En það er ekki það eina. Þar sem starfsmenn öryggissveita voru almennt látnir sinna eigin hverfum frekar en að hafa miðlægar deildir sem fóru í aðra borgarhluta þá tóku margir borgarbúar lögin í eigin hendur strax og Assad-stjórnin féll.

„Það sem þetta skapaði var ævilangt hatur og um leið og Assad-stjórnin féll var mjög einfalt fyrir íbúa að taka lögin í eigin hendur og hefna sín því þeir vissu hver hafði drepið börnin sín. Þeir bjuggu við hliðina á þeim, þeir sáu þá á hverjum degi, þeir vita hvar þeir eiga heim, nöfnin þeirra og hvað þeir gera á hverjum degi og hvernig andlit þeirra líta út,“ lýsir Lina stöðunni og tekur fram að næstum ómögulegt sé að fara til baka og brúa bilið milli þessara hópa.

Vonarglæta hafi þó sprottið upp í grasrótinni, en Lina nefnir að eins konar borgaralegar friðarnefndir hafi orðið til víða. Þær starfi innan eða á milli nokkurra hverfa og þar verði til sáttargrundvöllur sem leysi úr málum nágranna. Segir hún núverandi stjórnvöld ekki skipta sér mikið af þessu, enda sé geta þeirra takmörkuð, en að þau reyni þó að tengja einhverjar þessara nefnda á æðra stigi til að fá aukna samræmingu.

Ítarlegt viðtal við Linu má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert