Tónleikum Robbie Williams 7. október aflýst

Eiginkona Robbie Williams er gyðingur.
Eiginkona Robbie Williams er gyðingur. Ljósmynd/Wikipedia.org

Tyrknesk yfirvöld hafa bannað tónleika breska tónlistarmannsins Robbie Williams sem áttu að fara fram í Istanbúl á þriðjudag, 7. október, vegna „áhyggna af öryggi“. 

Á þriðjudaginn verða tvö ár frá hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael sem leiddi til stríðsins á Gasa. 

Skipuleggjendur tónleikanna greindu frá því að tónleikunum væri aflýst „í samræmi við ákvörðun borgarstjórnar Istanbúl“. 

Eiginkona Williams er gyðingur og kom hann fram í Ísrael árið 2015 og 2023 þrátt fyrir ákall aðgerðarsinna um að hann skyldi sniðganga ríkið. 

„Mér þykir það afar leitt að ég geti ekki komið fram í Istanbúl í næstu viku,“ sagði í færslu Williams á Instagram. 

„Borgaryfirvöld hafa aflýst tónleikunum í þágu öryggi almennings. Það síðasta sem ég vill nokkurn tímann gera er að ógna öryggi aðdáenda minna – öryggi þeirra er alltaf í fyrirrúmi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert