Ítölsk yfirvöld vinna náið með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins við að fá Bandaríkjastjórn til að falla frá auknum tollum á ítalskt pasta. Mikillar reiði gætir á meðal ítalskra pastaframleiðenda með ákvörðun Bandaríkjastjórnar.
Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í síðasta mánuði áform um að leggja bráðabirgðaundirboðstolla á innflutt ítalskt pasta upp á 91%, frá og með janúar á næsta ári.
Tollarnir myndu bætast ofan á þá 15% innflutningstolla sem eru þegar í gildi.
Þessi tollaákvörðun kemur í kjölfar rannsóknar viðskiptaráðuneytisins á viðskiptaháttum ákveðinna vörumerkja sem selja vörur í Bandaríkjunum.
Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að tveir stórir ítalskir pastaframleiðendur hafi selt pasta undir markaðsvirði frá júlí 2023 til júní 2024.
Talið er að fyrirhugaðir undirboðstollar geti skilað sér í tvöföldun í verðlagi.
Eins og fyrr segir gætir mikillar reiði á meðal ítalskra pastaframleiðenda með ákvörðun Bandaríkjastjórnar. Stærstu landbúnaðarsamtök Ítalíu, Coldiretti, segja ákvörðunina vera „banahögg“ og til þess fallna að færa framleiðslu frá Ítalíu og til Bandaríkjanna.
