60 ára karlmaður var handtekinn eftir að hann skaut fjölda skota úr íbúðarhúsnæði í Croydon Park, úthverfi í vesturhluta Sydney í Ástralíu.
ABC greinir frá. Karlmaður á fimmtugsaldri hlaut skotsár í brjóst og háls og var fluttur á sjúkrahús þar sem hann er lífhættulega slasaður en hátt í tuttugu manns eru særðir eftir að maðurinn hóf skothríð út um glugga í húsi sínu.
Stephen Parry aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að árásarmaðurinn hafi skotið á vegfarendur og bíla þar með talið á lögreglubíla. Hann sagði við blaðamenn að ekki væri ljóst á þessari stundu hversu mörgum skotum hafi verið hleypt af en hugsanlega væru þau á bilinu 50 til 100.
Alls voru allt að 16 manns meðhöndlaðir á vettvangi af sjúkraflutningamönnum vegna minni háttar meiðsla, þar af voru tveir fluttir á sjúkrahús til frekari meðferðar.
Árásarmaðurinn var fluttur á sjúkrahús en hann hlaut minni háttar meiðsli að sögn Parry en lögreglan fann og lagði hald á fjölda skotvopna í íbúð mannsins, þar á meðal riffil með löngu hlaupi.
