Tilraunum Hamas-hryðjuverkasamtakanna og ísraelskra stjórnvalda til að bera klæði á vopnin á Gasasvæðinu var fram haldið í Egyptalandi í dag og reiknað með því að þær standi „nokkra daga“ eftir því sem bandaríska sjónvarpsstöðin CNN greinir frá.
Byggjast viðræðurnar á áætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að koma á friði á svæðinu og koma milligöngumenn við umleitanirnar frá Bandaríkjunum, Katar, Egyptalandi og Tyrklandi hefur CNN eftir embættismanni sem til þekkir.
Trump krefur samningamenn um að hafa hraðann á og hefur áður látið í veðri vaka við CNN að Hamas-samtökin verði „þurrkuð út“ neiti þau að gefa völd sín á Gasa eftir.
Trump skipaði Ísraelum á föstudaginn að láta af loftárásum á svæðinu þar sem á annað hundrað manns hafa þó látið lífið yfir helgina.
Á morgun eru slétt tvö ár liðin frá hryðjuverkum Hamas í Ísrael.
