Marine Le Pen, leiðtogi róttæka hægriflokksins Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, vill að efnt verði í flýti til þingkosninga í landinu eftir að Sebastien Lecornu sagði af sér sem forsætisráðherra eftir aðeins mánuð í embætti og skömmu eftir að hann tilkynnti um nýja ríkisstjórn.
„Það er algjörlega nauðsynlegt að leysa upp (þingið),” sagði Le Pen.
Hún bætti við að það væri „skynsamlegt” fyrir Emmanuel Macron Frakklandsforseta að segja einnig af sér embætti.
Macron hefur áður útilokað þann möguleika en kjörtímabili hans lýkur árið 2027. Lecornu var sjöundi forsætisráðherrann sem Macron skipaði í embætti.
Sebastien Lecornu var aðeins 27 daga í embætti, sem er stysti tíminn sem nokkur franskur forsætisráðherra hefur setið í embætti í landinu í seinni tíð.
Lecornu sagði að erfiðar aðstæður hefðu komið í veg fyrir að hann gæti haldið áfram sem forsætisráðherra. Kvaðst hann hafa neyðst til þess að segja af sér embætti vegna viðbragða ákveðinna flokksmanna, sem hann gagnrýndi harðlega.

