Sumir fjallgöngumenn sem lentu í óvæntu hríðarveðri skammt frá Everest-fjalli lentu í ofkælingu er þeir börðust við mikla snjókomu.
Á sama tíma heldur björgunarfólk áfram að reyna að koma fjölda fólks brott.
Að minnsta kosti einn fjallgöngumaður er látinn og meira en 200 er enn fastur í austurhlíðum Everest í Tíbet. Svæðið er vinsælt á meðal fjallgöngumanna.
Um 350 manns hefur verið bjargað úr óveðrinu og dvelur fólkið í bænum Qudang. Yfirvöld eru í samskiptum við fjallgöngumennina sem eru enn fastir á svæðinu.
Dong Shuchang náttúruljósmyndari var á meðal hundraða ferðamanna sem voru á svæðinu.
„Eldingarnar og þrumuveðrið héldu stanslaust áfram. Snjókoman var svo mikil að ég gat varla sofið,” sagði Dong. Hópurinn hans var kominn í 4.600 metra hæð þegar hann ákvað að snúa við.
Dong bætti við að allir hefðu verið gegnblautir og að þó nokkrir í hópnum hefðu sýnt merki um ofkælingu.
Dong, sem er 27 ára, sagðist oft hafa farið í Himalaya-fjöllin en aldrei upplifað annað eins veður. „Allir hreyfðust mjög hægt. Leiðin var mjög hál og ég datt hvað eftir annað vegna klakans.”
Hópurinn komst á endanum til Qudang, að því er BBC greindi frá.
Chen Geshuang, sem var hluti af leiðangri Dong, sagði snjóinn hafa verið eins metra djúpan þegar hópurinn sneri við í gær.
„Við erum allir reynslumiklir fjallgöngumenn,” sagði Chen. „En það var samt ótrúlega erfitt að eiga við þetta hríðarveður. Ég var virkilega heppinn að sleppa í burtu.”