Friedrich Merz Þýskalandskanslari hótar því að Þjóðverjar sniðgangi Eurovision-söngvakeppnina á vori komanda verði Ísraelum meinuð þar þátttaka. Þetta sagði hann í gær, sunnudag, í viðtali við ARD-sjónvarpsstöðina þýsku er hann var spurður hvort til greina kæmi að Þýskaland sæti hjá yrði Ísraelum settur stóllinn fyrir dyrnar.
„Ég styddi það. Mér finnst það eitt að verið sé að ræða þetta hneyksli,“ sagði kanslarinn og bætti því við að Ísraelar væru hluti af söngvakeppninni.
Þýskaland er eitt hinna svokölluðu „fimm stóru“ landa sem jafnan stíga á svið í Eurovision ásamt Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Bretlandi, einkum þó vegna þess að ríkisútvörp þessara landa leggja mest fé til keppninnar án þess að þau hafi þó beinlínis farið með sigur af hólmi áberandi oft, þar standa Svíar og Írar með pálmann í höndunum og sjö sigra hvort land. Bretar hafa sigrað fimm sinnum.
Skiptar skoðanir eru um þátttökurétt Ísraels og andóf gegn því að Ísraelar syngi í keppninni árið 2026. Þannig hafa Frakkar tilkynnt þátttöku sína á meðan Spánverjar urðu fyrstir hinna fimm stóru til að lýsa því yfir að þeir tækju ekki þátt fengi Ísrael að gera það.
Hollendingar, Írar, Íslendingar og Slóvenar hafa hótað að draga sig frá keppni verði Ísraelar með. Danir kveðast taka þátt á næsta ári en segjast munu endurskoða afstöðu sína fái Ísrael að vera með frá og með 2027.
Í ljósi allrar þessarar umræðu hefur Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, lýst því yfir að það muni efna til atkvæðagreiðslu í nóvember um hvort vilji sé fyrir að meina ísraelska ríkisútvarpinu KAN að taka þátt á næsta ári.
Í bréfi til þeirra ríkisútvarpsstofnana sem aðild eiga að EBU skrifaði Delphine Ernotte Cunci forseti sambandsins að í ljósi þess ágreinings sem uppi væri, sem væri sá djúpstæðasti sem risið hefði um framkvæmd keppninnar, þyrfti málið að hljóta afgreiðslu „á lýðræðislegum grunni“.
Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hefur jafnan haldið sig fjarri pólitískum bitbeinum og þrætueplum en setti þó visst fordæmi þegar Rússum var gert að halda sig heima eftir innrásina í Úkraínu 2022.
Þrátt fyrir linnulítil vígaferli Ísraela á Gasasvæðinu, þar sem þeir hafa um tveggja ára skeið farið með oddi og egg gegn Hamas-hryðjuverkasamtökunum og óbreyttum palestínskum borgurum, hafa fulltrúar þjóðarinnar þó fengið að stíga á svið í Eurovision án þess að EBU hafi haft sig í frammi.