Ný Covid-afbrigði herja á Bretland

Sjúkrahúsinnlögnum á Bretlandi hefur fjölgað mjög vegna tveggja nýrra afbrigða …
Sjúkrahúsinnlögnum á Bretlandi hefur fjölgað mjög vegna tveggja nýrra afbrigða af Covid-veirunni. AFP/Daniel Leal-Olivas

Covid-tilfellum í Bretlandi hefur fjölgað töluvert að undanförnu þar sem tvö ný afbrigði, Nimbus og Stratus, leika Breta grátt. Sérfræðingar segja að þessi afbrigði veirunnar séu ekki alvarlegri en önnur sem á undan hafa komið.

Að sögn félags breskra heimilislækna fjölgar Covid-tilfellum nú um allt Bretland, sérstaklega meðal mjög ungra og aldraðra. Innlögnum á sjúkrahús hefur einnig fjölgað mjög samhliða þar í landi.

Afbrigðin tvö eru nú þau algengustu sem ganga manna á milli í Bretlandi að sögn yfirvalda.

Sérfræðingar segja að þessi afbrigði virðast ekki valda meiri hættu en fyrri gerðir Covid-veirunnar eða gera fólk veikara. Nýlegar erfðabreytingar gætu þó gert smit líklegri.

Eðlilegt að veirur þróist

Samkvæmt heimildum BBC hafa nýjustu afbrigðin einkennandi einkenni, þ.e. hæsi eða særindi í hálsi. Gegn særindum í hálsi segir breska heilbrigðisþjónustan að það geti hjálpað að drekka mikið af vökva og taka teskeið af hunangi.

Eðlilegt er að veirur þróist þegar þær dreifast á milli fólks með tímanum. Þegar breytingarnar verða verulega frábrugðnar eru nýju veirugerðirnar þekktar sem afbrigði.

Tæplega 227.000 manns eru taldir hafa látist úr Covid í Bretlandi frá mars 2020 til maí 2023, en þá lýsti  Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin því yfir að „alþjóðlegu neyðarástandi í heilbrigðismálum“ væri lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert