Rauði krossinn lýsir sig reiðubúinn til að aðstoða við að koma gíslum sem haldið er í Gasa aftur til fjölskyldna sinna í Ísrael og koma mannúðaraðstoð til Gasasvæðisins.
Sendinefndir frá Hamas, Ísrael og Bandaríkjunum hittast í Egyptalandi í dag til viðræðna sem miða að því að binda enda á nær tveggja ára stríð í Gasa.
Bæði Hamas og Ísraelsmenn hafa brugðist jákvætt við tillögu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að binda enda á átökin og leysa gíslana í Gasa úr haldi gegn því að Palestínumenn sem sitja í fangelsum í Ísrael verði látnir lausir.
„Teymi okkar eru tilbúin til að starfa sem hlutlaus mannúðaraðili til að hjálpa til við að koma gíslum og föngum aftur til fjölskyldna sinna,“ segir Mirjana Spoljaric, forseti Alþjóða Rauða krossins.
Rauði krossinn leggur áherslu á að mannúðaraðstoð þurfi að hefjast á ný af fullum krafti og vera dreift á öruggan hátt til fólks hvar sem það sé statt á Gasasvæðinu.
