Vestrænir íhlutir í rússneskum drónum og flugskeytum

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu. AFP

Úkraínumenn hafa fundið tugþúsundir erlendra íhluta, þar á meðal vestræna, í drónum og flugskeytum sem Rússar skutu í loftárás um helgina.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, greindi frá þessu í dag. 

„Í stórfelldri árás á Úkraínu aðfaranótt 5. október notuðu Rússar 549 vopnakerfi sem innihéldu 102.785 erlenda íhluti,“ sagði Selenskí í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlum og vísaði til árásar snemma í gærmorgun. 

Rússar skutu tæplega 500 drónum og yfir 50 flugskeytum á Úkraínu þá nótt. Fimm manns létu lífið, meðal annars í Lvív-héraði í vesturhluta landsins, hundruðum kílómetra frá víglínunni, og einnig urðu skemmdir á orkuinnviðum. 

Íhlutir frá mörgum löndum

Selenskí segir að íhlutirnir úr drónum og flugskeytum sem grandað var í árásinni kæmu frá fyrirtækjum í Bandaríkjunum, Kína, Taívan, Bretlandi, Þýskalandi, Sviss, Japan, Suður-Kóreu og Hollandi.

Spennubreytar, skynjarar og örtölvur voru meðal þeirra íhluta sem fundust í drónunum og flugskeytunum sem skotin voru niður að sögn forsetans. 

„Örstýringar fyrir ómannaðar flugvélar eru framleiddar í Sviss, en örtölvur fyrir flugstjórn dróna eru framleiddar í Bretlandi,“ sagði hann og bætti við að stjórnvöld í Kænugarði væru að undirbúa nýjar refsiaðgerðir gegn framleiðendum þeirra.

„Við höfum lagt fram tillögur til að hefta birgðakeðjurnar. Samstarfsaðilar okkar hafa þegar nákvæmar upplýsingar um hvert fyrirtæki og hverja vöru. Þeir vita á hvað skal miða og hvernig á að bregðast við,“ sagði forsetinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert