„Vonarneisti fyrir konur og stúlkur“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti samhljóða í dag ályktun um að stofna óháða rannsóknarnefnd um stöðu mannréttinda í Afganistan. Aðeins Kína sagði sig frá ákvörðun ráðsins.

Ísland hefur lengi kallað eftir því að rannsóknarnefnd verði stofnuð og leiddi sameiginlega yfirlýsingu þess efnis í ráðinu í mars, í samstarfi við Suður-Afríku og Chile.

Fagnar skrefinu

„Ég fagna því mjög að mannréttindaráðið hafi stigið þetta mikilvæga skref, sem er vonarneisti fyrir konur og stúlkur Afganistan og skilaboð um að alþjóðasamfélaginu standi ekki á sama um hetjulega baráttu þeirra,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í tilkynningu.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktunina í dag.
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktunina í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum beitt okkur fyrir því í mannréttindaráðinu, bæði opinberlega og bakvið tjöldin, að stofnuð verði rannsóknarnefnd svo hægt verði að varpa skýrara ljósi á þau svívirðilegu mannréttindabrot sem birtast sem kerfisbundin kynbundin kúgun gagnvart konum og stúlkum í Afganistan.“

Frá valdatöku talibana árið 2021 hefur mannréttindaráðið samþykkt árlega ályktun um stöðu mannréttinda í Afganistan þar sem umboð sérlegs skýrslugjafa um málefni Afganistan er endurnýjað. Sérlegur skýrslugjafi ráðsins um málefni Afganistan hefur sagt aðgerðir talíbana jafnast á við ofsóknir á grundvelli kynferðis.

Afganskar konur taka út peninga í banka í Kandahar fyrr …
Afganskar konur taka út peninga í banka í Kandahar fyrr í þessum mánuði. AFP/Sanaullah Seiam

Eina ríki heimsins

Fram kemur í tilkynningunni að Afganistan sé eina ríkið í heiminum sem banni stúlkum að ganga í skóla eftir 12 ára aldur. Þá séu konur og stúlkur útilokaðar frá opinberu lífi og þeim bannað að sinna ýmsum störfum, m.a. í heilbrigðisþjónustu og réttarkerfinu.

„Afganskar konur hafa sjálfar lýst aðstæðum sínum sem kynbundinni aðskilnaðarstefnu. Afganir, frjáls félagasamtök og mannréttindaverðir hafa ítrekað kallað eftir aukinni ábyrgðarskyldu í formi óháðrar rannsóknarnefndar með vítt umboð,” segir einnig í tilkynningunni.

Ísland tók virkan þátt í samningaviðræðum um ályktunina í yfirstandandi haustlotu mannréttindaráðsins. Þá studdi Ísland ásamt fleiri ríkjum við hliðarviðburð með afgönsku baráttufólki fyrir mannréttindum.

Ísland var kjörið til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025 til 2027. Mannréttindaráðið fundar að jafnaði í þremur reglubundnum fundalotum á ári sem standa yfir í nokkrar vikur í senn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert